fimmtudagur, apríl 30, 2009

30. apríl 2009 - Gönguferðir í náttúrunni

Það fylgdi heilmikið ferðablað með Mogganum sem kom í hús á miðvikudagsmorguninn. Ég fór að fletta bæklingnum og inni í blaðinu sá ég mynd frá orkuverinu á Nesjavöllum og með grein um þjónustu Orkuveitunnar var mynd af gönguhóp að klöngrast yfir erfitt svæði.

Æ, hvað ég öfunda þetta fólk að vera svona frjálst úti í náttúrunni hugsaði ég með mér. En það er eins og að fremsta manneskjan á myndinni sé með bakpoka frá Orkuveitunni velti ég fyrir mér er ég skoðaði myndina betur um leið og mér fannst ég kannast við úlpuna og göngustafina og húfuna á manneskjunni.

Þar sem ég horfði á myndina í blaðinu, rann smám saman upp fyrir mér að ég var að dást að mynd af sjálfri mér.


0 ummæli:







Skrifa ummæli