föstudagur, ágúst 10, 2007

10. ágúst 2007 - Ættarmót gamalla vinstrimanna?

Á fimmtudagskvöldið mætti ég niður að Tjörn til að taka þátt í kertafleytingu. Ég hefi mætt reglulega frá 1997 og held ég geti fullyrt að ég hafi ekki misst úr eitt einasta skipti síðan þá. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem ég tek þátt sem vottar fyrir úrkomu að kvöldi minningardags fórnarlamba kjarnorkusprengjunnar. Þó rigndi ekkert meðan á athöfninni stóð þótt eitthvað byrjaði að blotna á leið minni frá Tjörninni og í gegnum miðbæinn að bílnum sem var vel geymdur hjá Seðlabankanum.

Það var mun færra í þetta sinn en oftast áður. Fyrir bragðið saknaði ég margra gamalla vinstrisinna sem ávallt mættu og rifjuðu upp gamlar minningar frá Keflavíkurgöngum og sellufundum. Er það nema von? Þessar tvær dagsetningar friðarsinna, minningarathöfnin við Tjörnina í ágúst og friðargangan á Þorláksmessu eru sem ættarmót gamalla vinstrimanna sem hittast orðið aldrei nema við þessi tvö tækifæri eða þá við jarðarfarir gamalla baráttufélaga.

Það má ekki vanvirða fólkið sem ég hitti. Þannig staðfesti Björk Vilhelmsdóttir við mig að konan sem býr nú á fæðingarstað móður minnar við Lokastíg er systir hennar. Guðmundur Georgsson læknir var þarna og margan áhrifamanninn og konuna sá ég einnig sem teljast á vinstri væng stjórnmálanna en sem ég þekki ekki allt persónulega.

Regndroparnir voru ekki hið versta. Ef ég held rétt, þá rigndi í Nagasaki morguninn sem sprengjan féll. Það var ekki eins góð og heilnæm rigning.


0 ummæli:







Skrifa ummæli