mánudagur, ágúst 27, 2007

27. ágúst 2007 - Umhverfissóðinn "Vatn á flösku"


Íslenskt vatn hefur mikið verið dásamað af Íslendingum að undanförnu, svo mjög að stöku ofurfjárfestar hafa veðjað á átöppun á vatni á flöskur, en svo virðist sem ekki verði allt vatnið sopið þótt í flöskuna sé komið.

Í Dagens nyheter er sagt frá því að vatn á flöskum sé nú bannað á opinberum vinnustöðum í San Fransiskó í Bandaríkjunum og víða um heim hafa betri veitingahús hætt að bjóða upp á vatn í flöskum, en bjóða þess í stað kranavatn. Ástæðan: Vatn á flöskum er umhverfissóði.

Vatn á flöskum inniheldur oft of mikið magn af flúor og natrium auk þess sem plastflöskurnar gefa frá sér antimon (hvað sem það nú er), en meira en milljarður af tómum vatnsflöskum hafna á ruslahaugunum ár hvert í San Fransiskó. Verstir af öllu eru þó vatnsflutningarnir. Þannig hefur verið reiknað út að vatnsflutningarnir í Svíþjóð einni samsvari koldíóxíðmengun frá 12500 bifreiðum.

Úr því að vatn á flöskum er orðið svona slæmt og ég svona umhverfisvæn, velti ég því fyrir mér hvort ég haldi mig ekki bara við bjórinn í framtíðinni?


0 ummæli:Skrifa ummæli