föstudagur, ágúst 24, 2007

24. ágúst 2007 - Ástandið í miðborginni

Þessa dagana gengur maður undir manns hönd og kvartar yfir miðborginni okkar, sóðaskap, sígarettustubbum og rónum, allt eins og þetta sé í fyrsta sinn. Fólk sé jafnvel hætt að þora að fara niður í bæ um hábjartan dag. Sem ég hefi alltaf vitað. Þessir útlendu ferðamenn eru stórhættulegir! Eða hvað?

Ég skal fúslega viðurkenna að það er miklu meira um sígarettustubba en áður. Restin eru ýkjur. Ég man eftir heimsþekktum fyrrum íþróttamanni illa til reika að betla fyrir kogara á Hallærisplaninu (Ingólfstorgi) á sjöunda áratugnum svo ekki sé talað um menn sem ég starfaði með á sjó á svipuðum tíma og lentu á götunni. Það var í rauninni miklu meira um þá á götunum fyrir 30-40 árum en nú er. Þegar farið er niður í bæ á daginn að sumri til hitti ég orðið sárafáa Íslendinga, vissulega einn og einn heimilislausan vesaling, en byrði hefur mér aldrei orðið af þeim, ekki fremur en útlendingum alsaklausum af nokkrum óhæfuverkum á Íslandi. Það væri kannski nær fyrir borgarstjórann að koma upp fleiri heimilum og meðferðarúrræðum fyrir ógæfumenn en nú er og þannig losna við þetta annars ágæta fólk af götunum.

Hið einasta sem ég þarf að óttast niðri í bæ eru stöðumælaverðir, en jafnvel þeir láta mig í friði á meðan ég á nóg af klinki til að greiða í stöðumælirinn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli