miðvikudagur, ágúst 22, 2007

23. ágúst 2007 - Heimskupör forsetans í Venesúela?


Ég rak augun í litla frétt á forsíðu Blaðsins á miðvikudag þar sem sagt er frá því, að því er virðist í hæðnistón, að Hugo Chaves og Venesúela fái eigið tímabelti. Samkvæmt fréttinni muni Venesúela færa klukkuna fram um hálftíma um næstu áramót tilkynnti Hugo Chavez.

Er þetta virkilega rétt? Ætlar Venesúela virkilega að fara að fordæmi Íslendinga og stilla klukkuna löngu á undan sólartíma og taka upp sama tíma og Nýfundnaland um áramótin? Allir sem vilja vita, gera sér grein fyrir því að Reykjavík er einum og hálfum tíma á undan hnattstöðu sinni í tímasetningu sem gerir það að verkum að sólin nær ekki inn á svalirnar hjá mér fyrr en klukkan 14.00 í stað þess að skína á þær fyrir klukkan 13.00.

Ég renndi augunum snögglega yfir netið og sá strax eina síðu þar sem talað er um að það eigi að seinka klukkunni um hálftíma um áramótin en ekki flýta henni. Þá fer þetta að verða skiljanlegra. Venesúela liggur á milli 60°V og 73°V. Höfuðborgin Caracas er nærri miðjunni eða um 67°V. Það þýðir að sólin er hæst á lofti í höfuðborginni fjórum og hálfum tíma eftir sömu sólarstöðu í Greenwich. Ef ég hefi skilið síðuna rétt, er Venesúela einfaldlega að rétta af skekkjuna og miða hádegi við hádegisstöðu sólar í Caracas sem er hinn eini rétti tími.

Klukkan í Nepal er 5 klukkustundum og 45 mínútum á undan Greenwich. Það kalla ég einstakan tíma og mun réttari en fáránleiki klukkunnar á Íslandi, enda er Katmandu um það bil 85°Austur sem svarar til rúmlega fimm og hálfs tíma mismunar frá Greenwich!

Það þarf kannski að kenna þeim á klukku í Hádegismóunum?

http://www.timeanddate.com/worldclock/timezone.html?n=472


0 ummæli:







Skrifa ummæli