miðvikudagur, ágúst 22, 2007

22. ágúst 2007 - Um ættfræðina


Ég á mér uppáhaldsvegg hér í litlu íbúðinni minni, en veggurinn góði er þakinn bókum, þykkum bókum og þunnum bókum, niðjatölum, manntölum, stéttatölum, byggðatölum, upplýsingum um vesturfara og afkomendur þeirra, en einnig eru í hillunum allmargar bækur sem tengjast ættfræðinni óbeint eins og jarðabækurnar og einstöku ævisögur með ættfræðiívafi. Þegar ég er að grúska í ættfræðinni er stutt að teygja sig í bækurnar og ná í þær sem ég þarf að lesa í það og það skiptið.

Ég viðurkenni fúslega að ég á ekki til allar íslenskar ættfræðibækur þótt ég eigi flestar þær sem komið hafa út á síðustu árum, en helst vantar mig fjöldann allan af litlum niðjatölum sem komið hafa út í tengslum við niðjamót sem njóta sífelld meiri vinsælda og eru haldin víða um land á hverju sumri.

Öfugt við suma er ég ekki það sem kallað er ættfræðingur. Ég reyni að beita fræðilegum aðferðum hvað snertir vinnslu úr frumgögnum þar sem prentaðar heimildir hrökkva ekki til og svo reyni ég að skrá heimildir eins kostgæflega og mögulegt er. Það gefur mér samt engan rétt á að nota þetta ágæta vísindaheiti yfir grúskið mitt. Hólmfríður Gísladóttir fyrrum formaður Ættfræðifélagsins og atvinnumanneskja í faginu notar starfsheitið ættgreinir um rannsóknir sínar.

Á þriðjudag birtist viðtal við ónefndan ættfræðing í Ríkisútvarpinu Rás 1. Þar hélt hann því fram að ættfræðibækurnar hans skiptu tugum þúsunda. Ég fór að virða fyrir mér vegginn góða með ættfræðinni. Merkilegt nokk, þá á ég rúmlega sex hundruð ættfræðirit og er yfirmáta stolt yfir þessum bókakosti. Hvað þarf ég marga svona veggi til að komast upp í tugi þúsunda? Ef mig misminnir ekki á Friðrik Skúlason rúmlega þúsund ættfræðibækur og á hann þó eitt af stærstu ættfræðisöfnum á Íslandi. Var ættfræðingurinn ónefndi kannski bara að ýkja aðeins um bókakostinn sinn?


0 ummæli:







Skrifa ummæli