þriðjudagur, ágúst 21, 2007

21. ágúst 2007 - Um mígildi í miðborginni


Undanfarna daga hefur orðið vart við ramakvein í þeim bloggurum sem búa í miðborg Reykjavíkur yfir hávaða í unglingum og því að migið sé utan í hús þeirra. Íbúar miðborgarinnar geta sjálfum sér um kennt.

Ég bý og vinn í Árbæjarhverfi og kem orðið sjaldan niður í 101 Reykjavík og enn sjaldnar er ég að þvælast þar á kvöldin og nóttunni hvað þá að ég mígi utan í húsin hjá miðbæjarrottunum. Ástæðan er einföld. Ég vil hafa kyrrð og ró í kringum mig á nóttunni, ekki þau læti sem eru í miðborg Reykjavíkur. Ef ég vildi hafa slík læti við heimili mitt myndi ég selja eins og skot í Árbænum og flytja niður í bæ. Þetta er nákvæmlega það sem miðbæjarrottunum stendur til boða. Ef þær vilja frið og ró í kringum sig, selja þær einfaldlega útmigna kofana sína og flytja í rólegt úthverfi eins og Breiðholt eða Árbæ, svo ekki sé talað um nærsveitir á borð við Mosfellsbæ.

Varðandi miguna má hinsvegar benda borgaryfirvöldum á einfalda bráðabirgðalausn sem notuð er í Amsterdam á Queens day þann 30. apríl, en borgaryfirvöld þar töldu betra að koma upp slíkri salernisaðstöðu fyrir karla fremur en að unglingarnir skiluðu bjórnum út í síkin frægu.

-----oOo-----

Ég skrapp upp á Akranes á mánudag (fyrir íbúa miðborgarinnar skal þess getið að hægt er að fá póstkort með myndum af Akranesi). Á leiðinni til baka lenti ég fyrir aftan gamla konu á bifreiðinni TK-306. Hún ók á um 60 km hraða þar sem hámarkshraðinn var 90 km/klst og datt aldrei til hugar að víkja fyrir hinni miklu eftirmiðdagsumferð sem vildi komast hraðar. Því horfði ég á eftir hverjum bílnum á fætur öðrum taka dauðasjensinn í von um að komast framfyrir gömlu konuna og held ég að öllum hafi tekist það. Allavega heyrði ég ekki um neitt dauðaslys á Vesturlandsveginum þar sem bíll ók framan á þann sem á móti kom.

Er ekki samt kominn tími til að ráða gömlu konunni heilt og benda henni á að það ganga strætisvagnar á milli Akraness og Reykjavíkur auk Sæmundarrútunnar á milli Reykjavíkur og Borgarness.

-----oOo-----

Loks fær Þórður áhafnarkapteinn á Monarch of the Seas hamingjuóskir með 38 ára afmælið. Nú er hann aftur búinn að ná Schumacher og Hakkinen í aldri.


0 ummæli:







Skrifa ummæli