miðvikudagur, ágúst 29, 2007

29. ágúst 2007 - Æsland og hin ruslheitin


Ég hefi stundum hæðst að þessum enskuslettum sem virðast komin til að vera í íslensku máli, svo mjög að góð og gild íslensk orð eru látin víkja. Flugfélagið Íslenskar hraðferðir er látið heita Æsland Express (skrifað Iceland Express) og skólabíllinn frá gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli er látinn heita Reykjanes Express. Á síður íslensku varðskipanna stendur risastórum stöfum Coast Guard. Blandaður hópur Íslendinga og útlendinga mótmælti virkjanaframkvæmdum undir heitinu Seifing Æsland (eða var það Seivíng Æsland?) og popparar landsins ætla allir að meika það á ensku. Fræg var deilan árið 2001 þegar sigurlagið Birta úr undankeppni Evrópusöngvakeppninar breyttist í Angel, þeir félagar Kristján og Gunnar breyttust í Two tricky og voru svo rassskelltir í lokakeppninni. Ísland heitir reyndar Island víða í Evrópu, jafnvel Islande eða Ijsland en enska útgáfan virðist samt ráðandi í túrhestaverslunum. Allt er merkt þessu Æslandi og erfitt að fá neitt sem merkt er Íslandi eða Island.

Það var ágætis viðtal við Spánarbúann Kristin Ólafsson í síðdegisútvarpinu á þriðjudag þar sem hann benti á þessa óheillaþróun tungumálsins. Þar ræddi hann meðal annars atvikið þar sem hann ætlaði að fá sér rauðvínsglas á veitingahúsi í Reykjavík, en stúlkan sem ætlaði að afgreiða hann kunni ekki íslensku. Á endanum þurfti að kalla til einhvern íslenskan yfirmann sem afgreiddi hann.

Með því að krefjast þess að íslenska sé ráðandi tungumál á Íslandi er ekki verið að kreista fram einhvern þjóðrembing, heldur einungis verið að krefjast þess að móðurmálið verði áfram ráðandi eins og síðustu þúsund árin. Um leið er engin ástæða til hafna öllum tökuorðum því oft hafa erlendar slettur fest sig í málinu þegar Íslendingar hafa búið til stirðleg orð yfir einstöku þætti mannlegrar tilveru, orð eins og bíll, bíó, pólitík og svo framvegis. Vonandi mun alþjóðlega orðið trans sömuleiðis festast í málinu í stað rangnefnisins kynskiptingur. (orðið trans er upphaflega komið úr latínu en Þjóðverjar byrjuðu að nota það í tengslum við það er líkamlegt kynferði fólks er ekki í samræmi við tilfinningar þess).

Mér kom til hugar að nýja áætlunarferðin á milli gömlu herstöðvarinnar og Reykjavíkur mætti heita Kleppur hraðferð, en það væri svo sannarlega rangnefni rétt eins og kynskiptingarnir. Því skulum við bara kalla áætlunarferðirnar Reykjanes-hraðferð!


0 ummæli:Skrifa ummæli