fimmtudagur, ágúst 09, 2007

9. ágúst 2007 - Kappakstur við tímann!

Á miðvikudagsmorguninn þurfti ég að skreppa bæjarleið eftir næturvaktina. Það kom ekki til af góðu því gamli beinirinn minn (routerinn) sem hafði þjónað mér dyggilega í þrjú ár gaf upp öndina þegar starfsmenn Landsnets við Brennimel brugðust mér á þriðjudag. Ég þurfti því að fá mér nýjan beini og sótti hann strax um morguninn til Símans sem stendur sig ávallt með prýði þegar ég kvarta og kveina enda hefi ég verið með nettengingu frá Símanum síðan á síðustu öld.

Á leiðinni heim með nýjan beini í kassa við hlið mér, veitti ég því athygli að maður sem kom akandi niður Ártúnsbrekkuna blikkaði framljósunum án afláts. Takk, hugsaði ég og sló af niður fyrir 80 km/klst. Rétt á eftir sá ég hvar lögreglan var að mæla hraða bifreiða sem stefndu upp Ártúnsbrekkuna.

Það er engin ástæða til að kvarta yfir ökumanninum sem lét okkur vita. Lögreglumaður í Svíþjóð sem ég þekki og ræddi við fyrir löngu, benti á að slík gáfumenni fengju alla umferð til að hægja á sér og þá er tilgangnum náð, ekki satt! Auðvitað er möguleiki á því að lögreglan hugsi frekar um að safna sektum, en það gildir ekki um Svíþjóð þar sem markmiðið er að draga úr umferðarhraða.


-----oOo-----

Ég vil svo minna á kertafleytinguna við Reykjavíkurtjörn og við Minjasafnstjörnina á Akureyri klukkan 22.30 í kvöld til minningar þeim fjölmörgu sem létu lífið í kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki árið 1945.


0 ummæli:







Skrifa ummæli