sunnudagur, september 14, 2008

14. september 2008 - Loksins, loksins, loksins

Þessa helgina eru komin rétt tvö ár síðan hinn sjöfaldi heimsmeistari í Formúlu 1 tilkynnti okkur aðdáendum sínum að hann hefði ákveðið að hætta keppni og fara á eftirlaun saddur keppnisdaga. Við aðdáendur hans vissum ekki okkar rjúkandi ráð, rifum í hár okkar og vorum á eftir sem sköllóttar hænur sem vissum ekkert hvað við ættum að gera af okkur á sunnudögum eftir brotthvarf meistarans, áhorfið minnkaði, ein og ein keppni gleymdist og smám saman fundum við okkur ný áhugamál, frímerkjasöfnun og fjallgöngur.

En öll él styttir upp um síðir. Það var á miðju síðasta ári sem tæplega tvítugur piltur leysti af eina keppni hjá BMW eftir að ökumaður hjá þeim hafði slasast lítillega í keppni. Þessi unglingur kom, sá og hafnaði í stigasæti í sinni fyrstu keppni. Nokkru síðar fékk Scott Speed hjá Toro Rosso (sem áður hét Minardi) reisupassann fyrir slælegan árangur og voru nú góð ráð dýr því einhver varð að hlaupa í skarðið fyrir hraðann og var unglingurinn kallaður til starfa. Pilturinn reyndist kappsfullur og áræðinn og tókst að ná fimm stigum að auki í kínverska kappakstrinum þá um haustið.

Nú hefur Sebastian Vettel sannað sig svo um munar með ótrúlegri keppnishörku í Monza og glæsilegum sigri. Ég held að engum dyljist lengur þvílíkur kappi er mættur til leiks og er nú bara að vona að hann komist í eitthvert stóru liðanna sem fyrst svo hann geti sýnt heiminum hvers hann er megnugur. Um leið má byrja að telja niður tímann þar til pilturinn verður heimsmeistari.

Allavega er ástæða til að byrja að fylgjast aftur með Formúlunni og kæmi mér ekki á óvart þótt Sebastian Vettel eigi eftir að verma fyrsta sæti hjá Ferrari þegar samningurinn rennur út við annað hvort Felipe Massa eða Kimi Räikkönen.

http://www.mbl.is/mm/sport/formula/2008/09/14/snilldarsigur_hja_vettel_i_erfidri_monzabrautinni/


0 ummæli:Skrifa ummæli