föstudagur, september 05, 2008

5. september 2008 - Óþarfi að missa sig Geir Haarde

Ég hefi sjaldan séð Geir Haarde skipta skapi, en það var ljóst í fréttum á fimmtudagskvöldið að hann var ekki sáttur. Það er þó spurning hvort Breiðavíkurdrengirnir séu rétta fólkið til að agnúast út í eða hans eigið starfsfólk í forsætisráðuneytinu.

Það er ljóst að mönnum ber ekki saman um opinberun á frumvarpsdrögum að bótum fyrir Breiðavíkurdrengi. Sjálf er ég ekki viss um hvort jafn opið frumvarp og hér virðist um að ræða sé hið rétta, hefði viljað leggja fram sérstakt lagafrumvarp um bætur til Breiðavíkurdrengja og það ríflegar bætur. Geyma síðan allt hitt, vinna það betur eða gleyma því.

Ég veit ekki hvað lá á bak við þessi frumvarpsdrög sem rædd hafa verið síðustu dagana. Með þeim var kannski verið að slá á puttana á veikustu einstaklingunum í hópnum og skapa þannig klofning innan hópsins, en sem betur hafa margir risið upp á afturlappirnar og eru nú tilbúnir að berjast fyrir rétti sínum.

Það er ljóst að Breiðavíkurdrengir voru í refsivist og einangrun að Breiðavík án dóms og laga. Sem börn hlutu þeir engan dóm fyrir óknytti en fengu hörðustu refsingu þrátt fyrir aldurstakmörk refsilöggjafarinnar. Það er fyrir þetta sem á að greiða þeim bætur, refsivist og einangrun án dóms og laga. Slíkt er svo alvarlegt brot á lögum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna, að til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig, verður að beita ríkið sömu refsingum og það beitir afbrotamenn.

Það þýðir ekkert fyrir Geir Haarde að æsa sig gegn Breiðavíkurdrengjum. Sem æðsti fulltrúi ríkisvaldsins er hann ábyrgur í óeiginlegri merkingu fyrir þeim glæpum sem ríkið framdi gagnvart þessum drengjum.

Það þýðir ekkert að rétta þessum drengjum smádúsu. Það þarf að senda þau skilaboð til framtíðarsamfélagsins að svona lagað verði ekki látið líðast aftur og þá nægja nokkur hundruð þúsund krónur engan veginn, ekki heldur tvær milljónir.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/04/harma_framgongu_forsaetisraduneytisins/


0 ummæli:Skrifa ummæli