föstudagur, september 19, 2008

19. september 2008 - Um bíllausan lífsstíl

Það hafa verið stofnuð samtök um bíllausan lífsstíl í Reykjavík. Þótt ég sé ekki með í þessum samtökum og ætli mér ekki að vera með, þá get ég verið sammála sumum þeim áherslum sem samtökin leggja áherslu á í áróðri sínum á meðan þau halda sig við það sem þau kalla öfgalausa umræðu um bíllausan lífsstíl.

Í gær (fimmtudag) var viðtal í útvarpinu við Sigrúnu Helgu Lund formann hins nýstofnaða félags þar sem hún benti á þrjú atriði sem séu á móti hjólreiðafólki, að borgin sé of dreifð, að veðrið sé of vont og að borgin sé of hæðótt. Sjálf hafi hún búið í Stokkhólmi síðasta vetur sem skáki okkur í öllum atriðum. Með þessu féll hún sjálf í áróðursgryfjuna og hóf síðan gömlu tugguna um að refsa ökumönnum enn frekar með auknum álögum. Þar með missti ég álitið á þessum samtökum með slíkan áróður í forystu.

Ég þekki Stokkhólm ágætlega og flest þau ár sem ég bjó þar, notaðist ég við almenningsfarartæki og reiðhjól. Ég kynntist því ágætlega hve Stokkhólmur og nágrenni eru hæðótt og dettur ekki til hugar að líkja slíku við Reykjavík. Þannig var mesti hæðarmunur frá vinnustað til heimilis rétt um 30 metrar. Eftir að ég flutti til Reykjavíkur var hann 100 metrar. Hæsti punktur í Stokkhólmi er 77,2 metrar eða rétt rúmlega Öskjuhlíðin en hæsta byggða ból í Stokkhólmi er mun lægra eða undir 50 metrum. Efstu hús í Breiðholti og Seljahverfi eru í yfir 110 metra hæð og veit ég þá ekki hæðina í hæstu húsum.

Sigrún Helga talar um dreifð byggðar í Stokkhólmi í samanburði við Reykjavík. Samkvæmt þeim tölum sem ég sé, eru íbúar 6,8 sinnum fleiri en í Reykjavík en á svipuðu flatarmáli eða eins og skipulagsfræðingarnir myndu setja það fram, 4117 íbúar/km2 á byggðu svæði í Stokkhólmi á meðan talan er 429,64 íbúar/km2 á sambærilegu svæði í Reykjavík. Semsagt önnur rangindi hjá formanni samtaka um bíllausan lífsstíl. Þá skulum við tala um veðrið.

Formaðurinn bendir á að sjórinn frjósi á veturna í Stokkhólmi enda fari frostið niður í -18°C. Ég get huggað hana með því að ég hefi upplifað mun kaldari vetur en þetta í Stokkhólmi eða niður í -28°C. Það eru góðir vetur. Þá frjósa vötnin og um leið og ísinn hefur myndast á vatninu, minnkar rakinn í loftinu og allt verður miklu þægilegra. Þegar frostið og norðangarrinn eru á fullu í Reykjavík er mjög erfitt að klæða af sér kuldann jafnvel þótt nokkrum trjám sé plantað meðfram hjólreiðastígum, en það hjálpar vissulega.

Ég held að ég haldi áfram að lifa sem hingað til, ganga styttri vegalengdir og í óbyggðum að venju en ferðast á eins þægilegan hátt og mér er unnt þess utan og án þátttöku í Samtökum um bíllausan lífsstíl fyrr en þau leggja af öfgafulla umræðu um bíllausan lífsstíl.


0 ummæli:







Skrifa ummæli