sunnudagur, september 07, 2008

7. september 2008 - Um kakkalakkafár!


Ég minnist þess fyrir nokkrum áratugum, að á skipi sem ég sigldi á, skiptu áhafnarlimir tugum þúsunda. Ekki var þar einungis um að ræða þessar fáu mannlegu hræður sem sigldu skipinu, heldur fylgdu skipinu aragrúi kakkalakka, slíkur fjöldi að óhugnanlegt þótti.

Einhverju sinni veitti ég athygli stórum og feitum kakkalakka á gólfinu í herberginu hjá mér. Í stað þess að stíga á hann eins og þótti góður siður á skipi þar sem helsta tómstundagaman áhafnarinnar var að gasa kakkalakka á frívaktinni, greip ég glerklukku undan ávaxtasafa sem ég hafði nýlega tæmt, gómaði kakkalakkann í krukkuna og lokaði. Einhverjum dögum síðar var stóri feiti kakkalakkinn dauður, en í hans stað var krukkan morandi að innan með pínulitlum kakkalakkabörnum. Kakkalakkarnir í krukkunni fjölguðu sér hratt og brátt fór ég að óttast að krukkan gæti brotnað í veltingi. Því endaði ævintýrið með kakkalakkana með því að ég drekkti öllum fósturbörnunum í Atlantshafinu og fór ekki fleiri sögum af kakkalakkarækt minni.

Þetta gamla ævintýri rifjaðist upp fyrir mér í gær er ég var að lesa DN og var þar sagt frá skipi sem var að koma frá Suður-Evrópu og þurfti að leita hafnar í Þórshöfn í Færeyjum vegna kakkalakkafárs um borð. Fréttin fjallaði þó ekki fyrst og fremst um það hvernig gekk að útrýma kakkalökkunum um borð, heldur um hættuna á því að einhverjir sjóveikir kakkalakkar færu í land og settust að í Færeyjum.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=824893

Í sjálfu sér hefi ég engar áhyggjur af hugsanlegum kakkalakkafaraldri í Færeyjum, enda trúi ég því ekki að aldrei áður hafi skip fullt af kakkalökkum komið þar til hafnar. Það væri hinsvegar fróðlegt að vita hvað skipið heitir og hvert það var að fara er ákveðið var að leita hafnar í Þórshöfn til að losna við óþverrann.


0 ummæli:







Skrifa ummæli