þriðjudagur, september 30, 2008

1. október 2008 - Enn af stóra Glitnismálinu.

Þótt ég verði seint aðdáandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og tek allri einkavæðingu með fyrirvara, þá er ég alls ekki sátt við Seðlabankavæðingu Glitnis, hins skilgetna afkvæmis frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins. Það hefur komið ágætlega fram í fjölmiðlum á þriðjudag, bæði í viðtölum við áður umræddan Jón Ásgeir sem og Sjálfstæðismanninn Þorstein Má Baldvinsson að persónulegar ávirðingar Davíðs Oddssonar gagnvart Jóni Ásgeir virðast hafa ráðið miklu í hruni Glitnis, eins og mig grunaði reyndar strax á mánudagsmorguninn.

Stóra Glitnismálinu er ekki lokið. Eignaupptaka Davíðs á Glitni var ekki öll sagan, heldur aðeins formáli að fjöldamálsóknum, margra ára réttarhöldum, falli stjórnmálamanna og hugsanlega ríkisstjórna og helstu þátttakendur málsins munu einungis geta tapað í þessu máli. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar munu vega þungt í þessum máli sem og vanhæfi. Þá munu vakna upp spurningar um Landsdóm og alþjóðlega dómstóla í mannréttindamálum.

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður skrifaði athyglisverðan pistil um þetta mál á heimasíðu sinni og benti meðal annars á athygliverðan þátt í málinu:

Það er kaldhæðni örlaganna að það var Davíð Oddsson, sem lagði fram frumvarpið um Seðlabankann árið 2001 og mælti fyrir því á Alþingi. Í ræðu sinni þá sagði hann m.a.: „ Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að þegar sérstaklega standi á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins geti hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða lán til að koma í veg fyrir t.d. bankakreppu. Sérstaklega er tekið fram að bankinn veiti ekki aðstoð til gjaldþrota lánastofnana eða lánastofnana með eiginfjárstöðu undir löglegum mörkum. Aðstoðin er takmörkuð við lánastofnanir sem lenda í vandræðum vegna lausafjárstöðu. Lánastofnanir sem t.d. uppfylla ekki skilyrði um lágmarks eigið fé verða að leysa sín mál með nýju hlutafé.“
Tilvitnun lýkur.

Ég á sem betur fer ekkert í Glitni, hvorki verðbréf né innistæður. Einustu fjárhagstengsl mín við Glitni í dag er í formi þátttöku minnar í lífeyrissjóðum sem geta hugsanlega tapað einhverjum fjárhæðum. Ýmsir ættingjar mínir tapa þó sparifé sem var bundið í hlutafé í Glitni. Þeirra vegna er full ástæða til að hafa áhyggjur sem og almennar áhyggjur okkar allra af hugsanlegum dómínóáhrifum af eignarupptöku Davíðs á Glitni.

Ritað á öðrum degi kreppu Davíðs Oddssonar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli