sunnudagur, september 21, 2008

22. september 2008 - Myntbreytingarrugl

Ég man þá tíð er gjaldeyrir var skammtaður þar með talinn áhafnargjaldeyrir. Ef ferðamenn eða áhafnarmeðlimir skipa vildu eða þurftu meiri gjaldeyri en þeim var skammtaður var helsta ráðið að taka með sér búnt af hundrað krónu seðlum til útlanda og reyna að skipta í bönkum erlendis. Ekki þýddi að koma með stærri seðla í bankann því einungis var hægt að skipta hundraðköllum og síðan var undir hælinn lagt hvort bankinn samþykkti að skipta. Ekki man ég hvort þetta breyttist með EES samningnum 1993, en það var búið að breyta þessu þegar ég kom til Íslands 1996. Sem betur fer.

Þessa dagana fer fram hávær umræða um að henda krónunni og taka upp aðra mynt, þá helst evru. Allt þetta tal er bull við núverandi aðstæður. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá neyðumst við til að sitja uppi með ónýtar krónur í nokkur ár til viðbótar og þar til efnahagur þjóðarinnar hefur náð jafnvægi. Síðan verður hægt að skipta yfir í alvörumynt.

Þegar myntbandalag Evrópu tók til starfa fyrir nærri áratug stóð íslenskur efnahagur það vel að við vorum á mörkum þess að geta skipt yfir í evrur ef önnur atriði hefðu verið uppfyllt, þá helst aðild að Evrópusambandinu. Það var ekki gert þá og nú erum við fjarri því að uppfylla skilyrðin. Þá get ég ekki ímyndað mér að aðrir gjaldmiðlar kæri sig um að fá á sig illt orð með því að blandast stórveldasinnuðum míkrógjaldmiðli.

Ef við ætlum að taka upp evrur þurfum við fyrst að sækja um aðild að Evrópusambandinu, síðan að aðlaga efnahagskerfi Íslands að Evrópu og þá fyrst verður hægt að taka upp evrur. Talið aftur við mig eftir áratug og þá skulum við sjá til. Kannski er rétta leiðin að byrja með því að skipta um bankastjórn og bankaráð Seðlabankans og fá þangað inn fólk sem er tilbúið að ganga til samstarfs við Evrópu.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/21/ihuga_beri_adra_mynt/


0 ummæli:







Skrifa ummæli