miðvikudagur, september 03, 2008

3. september 2008 - Röng mynd af vinstrigrænum í 24 stundum!

Á þriðjudag birtist mynd teiknuð af Halldóri Baldurssyni þar sem því er haldið fram að á flokksráðsfundi Vinstri grænna hafi verið samþykkt einróma að taka aftur árið 1979. Á myndinni var Steingrímur sýndur þar sem hann hélt fram ýmsum kröfum flokksins eins og hærri skatta, bankana aftur í ríkiseign, herinn heim og svo aftur burt, lífgum mjólkurbúðirnar og fleira og fleira.

Þegar haft er í huga að ég hefi sagt skilið við hugsjónir Alþýðubandalagsins með því að ég gekk til liðs við Samfylkinguna fyrir fáeinum árum eftir að hafa stutt Vinstri græna frá endalokum Alþýðubandalagsins, þá get ég ekki verið myndinni sammála þótt brosleg sé. Í stað þess að horfa á árið 1979, kemur allt annað ár upp í hugann sem hið ákjósanlegasta ár fyrir Vinstri græna. Það er 1968. Ekki vegna stúdentauppreisna í París, heldur vegna stöðu mála á Íslandi á þeim tíma sem að mörgu leyti líkist mjög stefnumálum Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs.

Árið 1968 voru mjólkurbúðir enn við lýði á Íslandi, kannski einnig 1979, ég man það ekki. Árið 1968 voru aflabrögð að miklu leyti svipuð og nú, síldin hafði brugðist, verðfall af mannavöldum (markaðarins) á þorski. Nú er veiði á þorski í lágmarki af mannavöldum og loðnan hefur brugðist en síldin á enn erfitt uppdráttar eftir ofveiði á sjöunda áratugnum. Árið 1968 höfðu Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík hvorugt komið í gang. Hvorutveggja eru eitur í augum margra vinstrigrænna. Árið 1968 var til sérstök Viðtækjaverslun ríkisins sem sá um að skrá öll útvarpstæki í landinu. Þá var Ísland ekki komið með í efnahagsbandalag, ekki einu sinni í EFTA og tollamúrar umluku landið, bannað að drekka áfengi á veitingastöðum á miðvikudögum, ekkert sjónvarp á fimmtudögum og í júlí, ölið var bannað og gjaldeyrir naumt skammtaður til ferðamanna. Flest af þessu átti reyndar einnig við 1979, en þá var farið að létta á hinum ýmsu boðum og bönnum enda vorum við komin í EFTA.

Árið 1968 var kreppa, ekki nú þótt sumir óski kreppu ef marka má málflutninginn enda voru öll eggin í sömu körfunni. Kannski voru það stóriðnaður á borð við álver sem vantaði 1968. Allavega er ég löngu hætt að bölsótast út í álver og atvinnuuppbyggingu á sama tíma og bannað er að draga fisk úr sjó nema með sérstökum fiskveiðikvóta.

Ég held að samþykkt flokksráðsfundar Vinstri grænna hafi verið að taka upp árið 1968.


0 ummæli:







Skrifa ummæli