laugardagur, september 20, 2008

20. september 2008 - Að fagna gömlum minningum


Á borðinu fyrir framan mig er gömul ljósmynd. Þar sjást sextán ellefu ára gamlir nemendur og loks aðalkennarinn Birgir Sveinsson. Við erum ægilega stillt og alvörugefin á myndinni, öll á sokkaleistunum nema kennarinn. Þessi mynd er tekin í apríl 1963 í hinum nýja Varmárskóla í Mosfellssveit sem tók við af gamla Brúarlandsskóla.

Þegar ég var að alast upp voru kirkjuferðir gamalla tíma aflagðar að miklu leyti og nýir hættir komnir í staðinn, fjölskylduboðin. Í dag eru það endurfundir í formi ættarmóta og endurfunda gamalla skólafélaga, svokallaðra reunion.

Þessa dagana sit ég í tveimur undirbúningsnefndum gamalla skólafélaga. Ekki erum við bara að fagna stúdentsafmæli frá MH, heldur eru og komin fimmtíu ár frá því við eignuðumst okkar fyrstu skólatöskur og virkileg ástæða til að fagna þeim tímamótum.

Ég skal viðurkenna að undirbúningsnefndin fyrir stúdentsafmælið er miklu skemmtilegri. Við vorum fullorðið fólk sem lauk stúdentsprófi frá MH og erum nú á besta aldri sem sötrum rauðvín og borðum osta á undirbúningsfundunum, hlæjum og flissum að einstöku atvikum í tímum eins og smástelpur. Í Brúarlandsskóla vorum við börn og af einhverjum ástæðum verðum við aftur börn þegar við hittumst og undirbúum endurfundi um mánaðarmótin.

Það eru 50 ár, hálf öld frá því við fengum fyrstu skólatöskurnar, pennastokkana, stílabækurnar haustið 1958.

Við þessir krakkar sem vorum saman frá sjö ára bekk í Brúarlandsskóla og síðan í Varmárskóla erum enn að mestu málkunnug, mörg búa enn í Mosfellsbæ. Við erum enn gamli hópurinn og þykir vænt um hvert annað.

Einhver kom með þá hugmynd að haldið yrði samkvæmi fyrir alla lifandi nemendur úr Brúarlandsskóla. Auðvitað yrði slíkt samkvæmi haldið í Hlégarði, næsta húsi við Brúarland. Hugmyndin er góð. Við framkvæmum hana fyrir vorið. J


0 ummæli:Skrifa ummæli