þriðjudagur, september 02, 2008

2. september 2008 -- Af raunum Hrafnhildar ofurkisu

Í janúar síðastliðnum var Hrafnhildur ofurkisa komin með gröft í lyktarkirtil í endaþarminum svo ég þurfti að láta laga þetta á dýraspítalanum. Nú veitti ég því athygli að hún var aftur farin að kvarta yfir hinu sama og því tími til kominn að fara með tvær kisur til dýralæknis.

Eftir hádegið á mánudag dró ég fram kattabúrið og auðvitað var Hrafnhildur fljót að koma sér fyrir í búrinu, enda vissi hún að búrið er fyrir hennar eigið öryggi þegar farið er í ökuferð. Öllu verr gekk að kljást við Tárhildi ofurvælu því hún harðneitaði að fara inn. Eftir nokkrar tilraunir tók ég hana í fangið, greip búrið og út í bíl.

Á leiðinni upp á dýraspítala vældi Tárhildur þessi lifandis ósköp þar sem hún reyndi að halda sér ofan á búri systur sinnar. Það var samt enginn griður gefinn og ég hélt þessa stuttu leið upp á dýraspítala. Þegar þangað var komið kom stór og vinalegur hundur hlaupandi að bílnum og vildi heilsa að mannasið. Tárhildur varð þá svo hrædd að um leið og ég opnaði búrið, skaust hún inn og ég lokaði á eftir henni.

Eftir það gekk allt vel, báðar kisurnar fengu sprautuna sína og ormalyf og dýralæknirinn náði að kreista út bólguna á Hrafnhildi og báðar fóru þær glaðar heim, þ.e. Hrafnhildur og dýralæknirinn. Það fer færri sögum af Tárhildi, en hún er núna skriðin upp í rúm og ánægð með afrek dagsins.

http://velstyran.blogspot.com/2008/01/22-janar-2008-af-ofurkisum.html

-----oOo-----

Ég horfði á fótboltaleik í sjónvarpinu í kvöld, algjöran hörmungarleik, en þótti það samt skylda að horfa á hann með öðru auganum enda KR að spila. Þvílík hörmung að þetta ömurlega uppáhaldslið mitt á Íslandi skuli vera komið í úrslit bikarkeppninnar. Það er greinilega af sem áður var, þegar Þórólfur Beck var í framlínunni, Bjarni Fel spilaði fúllbakk og Heimir Guðjónsson var í markinu. Má ég þá heldur biðja um hetjurnar í Halifaxhrepp eða þá kappana í United of Manchester.


0 ummæli:







Skrifa ummæli