mánudagur, október 01, 2012

1. október 2012 - Enn um einelti - Bjargmundur


Bjargmundur var leikfélagi minn ári yngri en ég. Hann var sex ára gamall er hann kom í barnaheimilið þar sem ég ólst upp sem og tvær systur hans. Faðir hans hafði látist nokkrum árum áður frá mikilli ómegð og fjölskyldan dró fram lífið í sárri fátækt í Pólunum, einhverju lélegasta íbúðarhúsnæði sem fyrirfannst í Reykjavík og þarna voru semsagt þrjú yngstu systkinin komin á barnaheimili þar sem þau fengu að minnsta kosti nóg að borða. Öllu verra var að Bjargmundur var á eftir jafnöldrum sínum í þroska, var vesæll og óburðugur, þreyttist oft og varð hræddur í hvert sinn sem einhver yrti á hann höstugum rómi og varð því fyrir talsverðu áreiti af hálfu margra annarra barna.

Einhverju sinni vorum við að leika okkur niður við ána sem rennur skammt sunnan barnaheimilisins þegar einhverjir eldri krakkar komu þar að og hófu að stríða Bjargmundi sem tók stríðninni illa og fór að hágráta. Einhver gerði málið enn verra með því að hrinda Bjargmundi í ána. Þetta var meira en nóg fyrir Bjargmund, hann skreið á land og hljóp heim rennblautur og hágrátandi og krakkaskarinn á eftir og hæddust að honum.  Aftast í hópnum hlupum við yngstu krakkarnir og tókum þátt í leiknum ef leik skyldi kalla. Nokkru eftir þetta fór Bjargmundur ásamt systrum sínum til móður sinnar í Reykjavík.

Tveimur árum síðar vorum við tveir krakkarnir við leik inni hjá forstöðukonunni meðan hún sat og las blöðin og skyndilega leit hún upp og sagði upphátt:
„Hann Bjargmundur er dáinn“

Ekki man ég hvaða leik við vorum að dunda okkur okkur við, en ég stirðnaði upp við þetta og upp í hugann kom atvikið er við stríddum Bjargmundi eins og særðu dýri á flótta. Enn í dag kemur þetta atvik öðru hverju upp í hugann og ávallt finn ég fyrir jafnmikilli skömm vegna hegðunar minnar er ég tók þátt í að hæðast að leikfélaga mínum.
 
Það sem við vissum ekki á þessum tíma var að Bjargmundur var með meðfæddan hjartagalla og var það skýringin á því af hverju hann var talsvert á eftir okkur í þroska. Það skiptir að sjálfsögðu ekki máli af hverju fólk er á eftir í þroska, en það útskýrir af hverju Bjargmundur var eftirbátur jafnaldra sinna. Hann lést á níunda ári sumarið 1961 og megi erfið lífsreynsla hans á stuttri ævi verða okkur öllum til eftirbreytni.


0 ummæli:Skrifa ummæli