sunnudagur, október 14, 2012

14. október 2012 - Enn um Perluna


Ég skrifaði pistil um hitaveitutankana í Öskjuhlíð í gær. Viðbrögðin voru nánast engin. Enginn ráðamaður tjáði sig um málið og enginn virtist hafa snefil af áhuga. Málið er afgreitt og Náttúruminjasafn fær heitavatnstankana á Öskjuhlíð til notkunar, skítt með fólkið sem býr í 101 og 107 Reykjavík. Ekki er hægt að kenna náttúrverndarsjónarmiðum um afstöðu borgarfulltrúanna því hið einfalda kerfi sem miðast við miðlun frá heitavatnstönkum sem liggja hátt uppi á að leggja af og byggja rándýrt kerfi sem miðast við að dæla vatninu fremur en að byggja upp þrýsting með því að lofa því að renna úr tönkum á Öskjuhlíðarhálendi til miðbæjar og vesturbæjar Reykjavíkur eða með léttum dælingum.

Þessa dagana eru miklar umræður í þjóðfélaginu um Orkuveitu Reykjavíkur, um bruðlið og spillinguna sem átti að hafa átt sér stað. Okkur sem unnum hjá OR og höfðum ýmislegt til málanna að leggja var uppálagt að tjá okkur ekki. Nú horfum við upp á þá staðreynd að spillingunni og bruðlinu á að halda áfram af hálfu borgaryfirvalda án þess að Orkuveitan hafi nokkuð um það að segja.

Nú á að gefa spillingunni nýtt nafn. Nú heitir það náttúruvernd ef vatninu er dælt í stað þess að láta það renna og ellefu borgarfultrúar af fimmtán klappa fyrir tillögunni og mælast til þess að hitaveitutönkunum í Öskjuhlíð, tönkunum sem eru undirstaða Perlunnar verði breytt í Náttúruminjasafn og skiptir þá engu máli margmilljarðakostnaður Orkuveitunnar til að breyta hitaveitukerfinu til samræmis við þessar nýju óskir borgarfulltrúanna. Alltaf skal Orkuveitan blæða fyrir skammsýni borgarfulltrúanna, en þessir ellefu borgarfulltrúar sem ég nefndi áður munu ekki verða par hrifnir þegar þeir missa heita vatnið vegna verra hitaveitukerfis en nú er.

Ímyndum okkur að við byggjum upp dælustöðvar í stað þess að nota hitaveitutanka í Öskjuhlíð. Við munum þurfa að byggja upp dælustöðvakerfi sem kostar ekki bara milljónir, heldur milljarða og verkfræðistofurnar græða meðan íbúar Reykavíkur blæða. Er þetta þess virði?

Stundum fæ ég á tilfinninguna að Davíð Oddsson fyrrum borgarstjóri hafi verið einasti borgarfulltrúinn sem þorði. Í hans tíð voru Nesjavallavirkjun og Perlan byggð og frábærasta og ódýrasta hitaveitukerfi í heimi sáu Reykvíkingum og nærsveitungum fyrir ódýrasta og besta hitaveitukerfi í heimi. Nú á að rústa þessu öllu fyrir skammsýni núverandi borgarfulltrúa sem hæla sér yfir svartri skýrslu um Orkuveitu Reykjavíkur en steypa henni jafnframt í ógnarskuldir framtíðar með því að gefa Náttúruminjasafni snilldarlegasta hluta hitaveitukerfis Reykjavíkur, hitaveitutankana í Öskjuhlíð sem stundum eru kenndir við Perlu.

Sveiattan!



0 ummæli:







Skrifa ummæli