mánudagur, október 29, 2012

29. október 2012 - Um fjölbreytileika á vinnumarkaði


Á fyrstu árum nýrrar aldar kom hópur ungra velmenntaðra karlmanna fram á sjónarsviðið. Flestir voru þeir með svipaða menntun í alþjóðaviðskiptum frá erlendum háskólum og flestir óku þeir um á svipuðum bifreiðum, fóru í líkamsrækt daglega og lifðu svipuðu lífsmunstri að öðru leyti. Þeim græddist fé, þeir voru áhrifamenn í nýlega einkavinavæddum bönkum og tækifærin blöstu við þeim. Risið varð hátt á örstuttum tíma, en svo hrundi það á einni viku og eftir sat hnípin þjóð í vanda.

Við getum horft á mörg alþjóðafyrirtæki. Kodak sankaði að sér snillingum á síðustu öld, en þegar stafræna byltingin hófst í myndum fylgdi fyrirtækið ekki eftir þróuninni og það fór þráðbeint á höfuðið. Fyrir innan við tuttugu árum kom Nokia með nýja tegund farsíma sem tóku öðrum fram og risið varð hátt, en fallið jafnfram hátt þegar aðrir komu með android símana. Nú er Microsoft sömuleiðis komið í vandræði eftir að það fylgdi ekki eftir þróuninni í smátölvum og tók seint við sér.

Þetta síðasta var meðal þess sem Harry van Dorenmalen stjórnarformaður IBM Europe talaði um á málþingi um atvinnumál transfólks í Dordrecht á dögunum. Hann benti á að eitt hið hættulegasta í stjórnun fyrirtækja væri einhæfni starfsfólksins og þá sérstaklega yfirmanna þeirra, oft hörkuduglegs og velmenntaðs starfsfólks, en það er oft líkt hverju öðru. Hann benti á að IBM hefði ráðið þeldökka konu sem einn framkvæmdastjóra sinna snemma á sjöunda áratugnum og að þetta hefði verið stórt skref í þá átt að auka margbreytileika starfsfólks á þeim tíma sem þeldökkir börðust fyrir réttindum sínum og áttu erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum og þetta bætt fjölbreytileika framleiðslunnar, hafi stóraukið hagnað fyrirtækisins auk þess sem það naut jákvæðrar athygli í augum þeirra sem teljast til minnihlutahópa.

Síðan hefur margt skeð í heiminum. Hinir ýmsu minnihlutahópar verða æ meir sýnilegir á atvinnumarkaði, konur, þeldökkir, múslímar, samkynhneigðir og fleiri og fleiri, nú síðast transfólk. Af hverju á öll þróun að miðast við jakkafataklædda hvíta unga og miðaldra karla? Við vitum hvernig íslensku bankarnir fór þráðbeint á höfuðið þegar innviðirnir byggðust upp á slíkum körlum sem miðuðu störf sín við sjálfa sig og þjónustu við aðra jakkafataklædda hvíta unga og miðaldra karla.

Er ekki kominn tími til að galopna atvinnumarkaðinn fyrir fjölbreytileika mannlífsins? 


0 ummæli:







Skrifa ummæli