miðvikudagur, október 17, 2012

17. október 2012 - Geir Jón


Geir Jón Þórisson fyrrverandi yfirlögregluþjónn hefur nú ákveðið að kasta sér út í hina djúpu laug pólitíkurinnar og byrjaði lágt, í stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins þar sem hann kynnti sína útgáfu af hrunskýrslunni. Ég get ekki sagt að ég fagni þessari pólitískt lituðu útgáfu hans af búsáhaldabyltingunni sem ég sé ekki betur en að sé röng í sumum atriðum. Það breytir ekki því að ég hefi löngum haft gott álit á Geir Jón sem álpaðist til Eyja fljótlega eftir vélvirkjanám í Héðni og gerðist lögregluþjónn. Hann var líka mjög vinsæll sem slíkur. starfaði sem lögregluþjónn og tollvörður í hjáverkum og reyndi ávallt að fara mjúku leiðina að fólki. Samskipti mín við Geir Jón voru ekki mikil á þeim árum sem ég var í Eyjum en þó einhver og öll vinsamleg. Eitt atvik verðum þó þeim minnisstætt af afskiptum Geir Jóns af fólki og í þessu tilfelli af pólitískum samherja hans, síðar útgerðarmanni í Vestmannaeyjum sem barst mikið á fyrir hrun.

Fyrir löngu síðan var, eftir ítrekaðar kvartanir til lögreglu vegna hraðaksturs á Illugagötu, ákveðið að setja upp stöðvunarskyldu á hana á fjölförnustu gatnamótunum. Þetta hafði lítið að segja til að byrja með því fáir virtu stöðvunarskylduna og óku þvert yfir aðalbrautina eins og ekkert hefði í skorist. Þá tók lögreglan til þess ráðs að stilla upp lögreglubíl við gatnamótin í þeirri von að ökumenn tækju þá frekar mark á stöðvunarskyldunni.

Geir Jón sat í lögreglubílnum á gatnamótunum þegar Maggi þáverandi útgerðarstjóri hjá útgerðinni sem ég vann hjá kom akandi upp Illugagötuna, hægði ekki einu sinni á sér þegar hann hélt áfram framhjá stöðvunarskyldunni og vinkaði til Geir Jóns um leið og hann mætti lögreglubílnum á leið sinni upp á Bröttugötu til viðræðna við skipstjórann á togaranum. Geir Jón vinkaði á móti. Eftir nokkurt samtal við Eyfa skipstjóra ók Maggi aftur niður á Geirseyri, vinkaði Geir Jóni aftur um leið og hann ók framhjá honum og yfir gatnamótin án þess að hægja á sér og aftur svaraði Geir Jón í sömu mynt. Tveimur eða þremur dögum síðar fékk Maggi tvöfalda sekt fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótunum.

Ég hugsa að sumir hefðu látið flokksagann hlífa manninum, en ekki Geir Jón.


0 ummæli:Skrifa ummæli