sunnudagur, október 14, 2012

15. október 2012 - Hugleiðing um jarmandi fé



Ég hefi sjaldan séð jafn ólíkar skoðanir á einni kvikmynd og á mynd Herdísar Þorvaldsdóttur. Ekki var það vegna gæða myndarinnar sem mér fannst fremur slöpp, heldur hafði orðspor hennar farið á undan henni og báru þess merki á Facebook, áhugamenn um búauðgistefnu voru almennt yfir sig hneykslaðir á meðan unnendur skóga fylltust lotningu yfir myndinni. Ég sat hjá enda ekki étið kindakjöt síðan á laugardagskvöldið.

Sjálf hefi ég ekkert á móti kindum þótt ég kunni lítt við þær nærri þjóðvegum landsins enda séð ófáar kindur dauðar í vegarkantinum í gegnum árin þótt mér hafi hingað til tekist að sleppa framhjá þeim á ferðum mínum um landið. Þess frekar hefi ég áhyggjur af lausagöngunni af öðrum ástæðum.

Þegar búauðgistefnan var í hámarki og bændur bjuggu í hverju koti þótti sjálfsagt og eðlilegt að hvert bú legði til mannskap til að taka þátt í leitum og smölun á afréttum haustin. Með fækkun og stækkun fjárbúa eru einungis örfáir hreppar eftir sem geta boðið upp á einhvern fjölda fólks sem komast í leitir. Fyrir bragðið er mikið lagt á örfáa bændur, en aðrir eigendur bújarða látnir greiða gjald hvort sem þeir eiga fé eður ei. Er því ekki eðlilegast að bændur fari að beita aðferðum nýsjálendinga og fari að reka féð í ákveðin beitarhólf og hvíli önnur á meðan. Það myndi auðvelda smölun á haustin og bjarga fjölda lamba frá því að verða fyrir banaslysum á þjóðvegunum, þó að því tilskyldu að þjóðvegurinn liggi ekki í gegnum beitarhólfið.

Annars er mér alveg sama, borðaði sjaldnast kindur meðan ég bjó í Svíþjóð og get alveg verið án þeirra þótt þær séu bragðgóðar. Auk þess finnast mér kindur vera með falskt augnaráð þegar ég stari beint í augun á þeim.  



0 ummæli:







Skrifa ummæli