föstudagur, október 05, 2012

5. október 2012 - Kosningar um tillögur að nýrri stjórnarskrá



Þegar ég bauð mig fram til stjórnlagaþings fyrir tveimur árum var það vegna þess að ég var óánægð með gömlu stjórnarskrána sem var upphaflega ekkert annað en rammi utan um skiptingu verksviðs á milli alþingis og ríkisstjórnar annars vegar og konungs hinsvegar. Allar þær breytingar sem hafa átt sér stað á stjórnarskránni eftir það hafa ekki verið annað en stagbætingar á henni, forseti kom í stað konungs, neitunarvaldið gert að frestandi neitunarvaldi, lagfæringar gerðar á kjördæmaskipan og einhverri mynd af mannréttaákvæðum bætt inn í stjórnarskrána.

Ég viðurkenni alveg að upphaflega ætlaði ég ekki að taka þátt, einfaldlega vegna þess að ég taldi aðra einstaklinga hæfari til setu í stjórnlagaráði en ég. Hinsvegar gat ég ekki skorast undan eftir að rúmlega 40 einstaklingar skoruðu á mig að taka þátt í kosningunum og skiluðu inn tilbúnum undirskriftum þeirra sjálfra. Því þurfti ekki annað en að fá innan við tíu undirskriftir að auki til að skila inn tilkynningu um framboð með hámarksfjölda meðmælenda. Eftir þetta gerði ég ekkert annað en að skrifa fáeina bloggpistla og mæta einu sinni eða tvisvar á kosningafundi og bíða svo eftir úrslitum.

Þegar talið hafði verið upp úr kjörkössunum kom í ljós að ég hafði lent í 43. sæti af 522 frambjóðendum sem var miklu meira en ég hafði búist við, en einnig hafði ég lent fáeinum sætum ofar en sá frambjóðandi sem ég hafði mælt með á meðmælendalista. Það breytti ekki þeirri staðreynd að ég var ekki kosin inn á stjórnlagaþingið og fylgdist með þinghaldinu í stjórnlagaráði úr fjarlægð.

Það er ýmislegt í tillögum stjórnlagaráðs sem ég hefði viljað sjá fara á betri veg, t.d. verndarákvæðið um kynvitund sem var fellt með naumindum og játa ég að ég sá ástæðu til að endurskoða afstöðu mína eftir þá atkvæðagreiðslu, enda er transfólk í hópi þeirra minnihlutahópa sem verða verst úti í niðurlægingu, árásum og ofbeldi af hálfu þeirra sem telja sig mega ráða yfir lífi og limum annarra. Þrátt fyrir þetta var niðurstaðan sú að betra væri að samþykkja nýja stjórnarskrá, en reyna að vinna að jákvæðum breytingum á henni á síðari stigum.

Stjórnarskrárkosningarnar verða eftir tvær vikur. Ég mun að sjálfsögðu mæta á kjörstað og greiða tillögum stjórnlagaráðs atkvæði mitt og hvet alla í kringum mig til að gera slíkt hið sama.



0 ummæli:







Skrifa ummæli