mánudagur, október 15, 2012

15. október 2012 - Áfall!

Í dag varð ég fyrir slæmu áfalli er ég sá tölvuskeyti til mín frá einhverjum samtökum sem bera hið virðulega heiti Landssamtökin 60+. Bíddu hæg, hvað er verið að senda mér kornungri manneskjunni eitthvert skeyti um samkomur eldri borgara? Svo hugsaði ég með mér að ég þyrfti eiginlega að áframsenda skeytið til aldraðra systkina minna enda var samkoman með yfirskriftina Staða aldraðra sjúkra í íslensku samfélagi. Upp í hugann kom einnig bréfið sem ég fékk frá lífeyrissjóðnum fyrir síðustu jól þar sem tiltekið var hve mikið lífeyrisgreiðslurnar rýrnuðu ef ég færi á eftirlaun við 60 ára aldur. Heldur fólk eiginlega að ég sé eitthvert gamalmenni?

En þetta var ekki hið versta.

Þegar ég kom úr vinnunni í dag mundi ég að ég þurfti að fara með föt í hreinsun, tíndi til fötin og ók með þau í efnalaugina. Þegar þangað var margt fólk að bíða afgreiðslu þegar kom að mér. Ég afhenti fötin til hreinsunar og gaf upp kennitöluna mína eins og venjulega. Um leið og afgreiðslukonan stimplaði inn kennitöluna segir hún hátt og skýrt yfir alla:
„Þú veist vonandi að eldriborgarar fá 15% afslátt!“
Mér brá. Fyrsta hugsunin varð sú hvort ég ætti ekki að taka fötin og fara með þau í einhverja aðra fatahreinsun þegar ég mundi að þetta er besta fatahreinsunin í bænum. Ég hætti því við að grípa til róttækra aðgerða, en læddist út með geymslukvittunina í höndunum.

Á leiðinni heim skaust einhver maður sem mér virtist vera örvasa gamalmenni fyrir bílinn minn, en þar sem ég bölvaði mér í sand og ösku fyrir að sleppa gamla manninum framfyrir mig áttaði ég mig á því að ég var farin að dragast aftur úr umferðinni og „gamli maðurinn“ keyrði eins og unglingur.

Þær hugsanir sem komu upp í hugann eftir að heim var komið eru ekki prenthæfar.
0 ummæli:Skrifa ummæli