föstudagur, október 19, 2012

19. október 2012 - Rafbíllinn

Ég fékk nýjan rafbíl lánaðan í morgun til prófunar. Þetta var svona Mitsubishi, ansi laglegur bíll en ekki leist mér mikið á vagninn í upphafi vitandi að ég kemst ekki nema hundrað kílómetra á hleðslunni.

Ég tók rafmagnskapalinn úr sambandi, settist upp í hann og ók af stað, ósköp varlega til að byrja með enda ekkert vélarhljóð til að segja mér að allt væri eðlilegt, einungis ljós sem sagði mér að nú mætti aka af stað. Ég komst samt ágætlega áfram og hélt alveg í við hina bílana, en svo kom að því að ég þurfti að stöðva á rauðu ljósi. Brátt kom stór amerískur trukkur upp að hliðinni á mér og hljóðið úr átta strokka vélinni var meira en ég þoldi. Um leið og skipti yfir í grænt gaf ég allt í botn og merkilegt nokk, þá var viðbragðið alveg þokkalegt. Bílstjórinn á ameríska trukknum var heldur ekkert að láta svona smápútu fara framúr sér og gaf allt í botn ég horfði á eftir honum í rykmekki. Ég gafst ekki upp og eftir nokkur hundruð metra mjakaðist ég framúr trukknum rétt í þann mund sem leiðir skildu og við héldum hvort í sína áttina.

Nú var ég aðeins farin að fá tilfinningu fyrir bílnum, montaði mig aðeins á honum um götur Reykjavíkur og skaust framúr hinum smábílunum eins og ekkert væri. Þegar prófuninni var lokið renndi ég með bílinn inn í bílageymslu og stakk honum í samband og snéri mér að öðrum verkefnum.

Svona bíll væri sennilega alveg kjörinn sem bíll númer tvö á heimili, en ekki gef ég samt mikið fyrir hann ef allt er á kafi í snjó og hálku um hávetur eða ef ég sé ástæðu til að aka austur á firði.

1 ummæli: