miðvikudagur, október 31, 2012

31. október 2012 - Útflutningur á rafmagni


Oft hefur sú umræða komið upp að rétt væri að banna útflutning á ferskum fiski, betra væri að fullvinna hann hér heima og selja hann til útlanda í frosnum flökum eða blokkum. Þetta væri allt ákaflega þarflegt og gott ef ekki væri fyrir þá sök að iðulega fæst hærra verð fyrir nýjan óunninn kældan fisk á mörkuðum erlendis en fyrir beingödduð flökin. Því hefur umræðan iðulega fallið um sjálfa sig þegar reynt hefur verið að banna útflutning á ferskum fiski.

Það var verið að kynna nýja skýrslu um efnahagsástandið á Íslandi á þriðjudaginn. Þar kom fram meðal annars að framleiðni Íslendinga er lægri á vinnustund en víða annars staðar og sýnir svart á hvítu að langur vinnutími leiðir af sér minni afköst. Var það ekki hjá BM Vallá þar sem afköstin jukust einhverju sinni þegar verkamenn stóðu í kjarabaráttu og fóru í yfirvinnubann?

Nú hefi ég ekki kynnt mér McKinsey skýrsluna í neinum smáatriðum, einungis heyrt af henni í fréttum. Þar virðist samt margt vera áhugavert, t.d. það að menntun í tæknigeiranum á Íslandi er langt fyrir neðan aðrar þjóðir og það er þegar orðinn skortur á tæknimenntuðu fólki á Íslandi. Þá hafa launin haldið fólki frá því að mennta sig á tæknisviði.

Eitt atriði í skýrslunni stingur samt í augun. Þar er því haldið fram að útflutningur á rafmagni um sæstreng myndi auka hagvöxt. Ég fer að halda að þeir hafi tekið mið af dæminu um óunna fiskinn hér að ofan er þeir sömdu skýrsluna. Vissulega munu fást fleiri krónur fyrir hvert megavatt sem selt er til Skotlands um sæstreng, en hvað mun það þýða í reynd? Um leið og kaplinum verður stungið í samband í Skotlandi mun raforkuverð til neytenda á Íslandi stórhækka. Sú uppbygging í iðnaði sem hefur þegar verið gerð á Íslandi mun stöðvast. Hið einasta sem getur komið í veg fyrir kollsteypu í íslenskum iðnaði verða hugsanlega rafmagnstöpin á leiðinni til Skotlands, því öfugt við óunna fiskinn mun flutningurinn á óunnu rafmagni flytja vinnuna við að búa til verðmæta vöru frá Íslandi til Skotlands eða annarra landa. Stundum getur nefnilega borgað sig að halda rafmagninu heima og sjálf er ég lítt hrifin af umræddum sæstreng.

Þar er betur heima setið en af stað farið!


0 ummæli:







Skrifa ummæli