fimmtudagur, október 04, 2012

4. október 2012 - Vesalings gamla fólkið


Bróðir minn er nýlega kominn á eftirlaunaaldur og farinn að taka á móti ellilífeyri eins og vera ber eftir of langa starfsævi. Ekki er hann öfundsverður af þeim aurum sem hann fær. Það má segja að samanlagður lífeyrir þeirra hjóna geri ekki meira en að nægja til að skrimta af ellilífeyrnum. Þau eru heppin að eiga þó sæmilega skuldlausa íbúð og bíl. Að einhverju leyti getur hann sjálfum sér um kennt. Hann starfaði lengi sem verktaki og greiðslur í lífeyrissjóðinn voru stundum eitthvað misjafnar þótt hann hafi lengstum reynt að greiða í lífeyrissjóðinn. Í dag situr hann uppi með sárt ennið og hefur ekki annað en það sem fylgir aukasporslum lífeyriskerfisins.

Þegar ofangreint dæmi er haft í huga er ekki hægt annað en að vorkenna gamla fólkinu. Það á varla ofan í sig að borða, getur lítið gert sér til skemmtunar, hefur ekki efni á ferð í leikhúsið eða rauðvíni með matnum á góðum stundum. Lyfin kosta svo æruna og verður að fara varlega með þau svo nóg sé til fyrir sæmilegri útför. Vesalings gamla fólkið. Það er full ástæða til að kvíða ellinni og kvíðinn vex eftir því sem árin líða og þessi hræðilega elli verður staðreynd okkur sem nú nálgumst efri árin.

Fyrir tæpu ári síðan fékk ég bréf frá lífeyrissjóðnum Gildi þar sem mér var tilkynnt hver skerðingin væri ef ég færi á eftirlaun við 60 ára aldur, en samkvæmt gömlum lögum frá Alþingi eiga þeir sem gert hafa sjómennsku að ævistarfi rétt á eftirlaunum ef þeir komast lifandi frá starfinu og ná 60 ára aldri án örorku eða dauða. Þótt ég sé löngu hætt föstu starfi á sjó næ ég þeim skilyrðum sem sett eru til að halda því fram að sjómennskan hafi verið ævistarfið. Ekki voru skilaboðin frá Gildi til að slá á kvíðann og eftirlaunaárin nálgast óðfluga. Ekki var það til að bæta úr að ég var tvisvar búin að horfa á eftir stórum hluta lífeyrissjóðsgreiðslu minnar hverfa í óðaverðbólgu og síðar í hruni útrásarræningjanna.

Um daginn tók ég mig til, rölti niður í Samband íslenskra lífeyrissjóða og fékk uppgefið hvað ég fengi mikið úr þeim lífeyrissjóðum sem ég hefi greitt í um dagana við 67 ára aldur miðað við núverandi stöðu mála. Upphæðin var eins og ég hafði búist við, engan veginn meiri en ég hafði búist við frá þeim flestum og horfi ég þá sérstaklega til þeirrar miklu skerðingar sem varð í lífeyrissjóði Eimskips í hruninu. Eitt var þó jákvætt. Ég hefi ávallt reynt að gæta þess að lífeyrisgreiðslur mínar verði teknar af öllum launum ef þess er kostur, ekki aðeins grunnlaunum. Þetta er að skila sér í dag í Lífeyrissjóði sveitafélaga þar sem háar greiðslur inn í sjóðinn munu skila sér í sæmilegum eftirlaunum þegar kemur að ellilífeyrnum. Í morgun fékk ég svo áætlun frá sænska lífeyriskerfinu. Samanlagðar verða heildargreiðslurnar því nálægt þremur fjórðu af núverandi tekjum miðað við að ég hætti að sjö árum liðnum, en ef ég þrauka í vinnu fram að sjötugu þarf ég ekki að kvíða fjárhagnum í ellinni þrátt fyrir allar skerðingarnar.

Þetta er að sjálfsögðu háð því að ég muni halda sæmilegri heilsu á meðan ég þrauka í vinnu, en það er undir mér komið að miklu leyti hvernig heilsan verður við sjötugt.

Vesalings gamla fólkið.


0 ummæli:Skrifa ummæli