sunnudagur, október 28, 2012

28. október 2012 - Að spara í utanlandsferðum


Ég skrapp til útlanda um helgina. Slíkt þykir kannski ekki í frásögur færandi, en að fara tvisvar til útlanda á tveimur mánuðum fyrir skítblanka manneskjuna þætti kannski óþarfi. Vissulega hafði ég farið til Írlands með viðkomu hjá frændfólki mínu nærri Manchester í september, en þá sleppti ég því að fara á kráarrölt tvö kvöld af þremur sem eytt var í Dublin og kom heim með nærri helminginn af evrunum sem ég hafði ætlað til ferðarinnar. Nú sleppti ég því að fara í bankann þegar haldið var til Hollands í þriggja daga ráðstefnuferð.

Ég ætlaði mér að kaupa lestarferðir fyrirfram í gegnum netið. Það reyndist ómögulegt og ég kom til Schiphol í Hollandi með einungis 200€ í vasanum, reyndar kortið til vara. Byrjaði á að kaupa mér farmiða á ódýrasta farrými með næstu lest til Dordrecht þar sem ráðstefnan var haldin, gekk frá hótelinu í ráðhús bæjarins þar sem haldin var móttaka fyrir ráðstefnugesti, en dauðþreytt skreiddist ég á hótelið klukkan tíu um kvöldið. Morguninn eftir gengum við tvær frá hótelinu á ráðstefnustaðinn og eyddum þar deginum, en gengum til baka um kvöldið þar sem vinkonan fór heim með næstu lest, en ég hélt til baka á hótelið.

Þriðja daginn notaði ég svo til að skoða mig um í Dordrecht, fékk mér steik á veitingastað og einn eða tvo öl á eftir og kvöldinu eytt við tölvuna á hótelinu.Síðan var haldið á flugvöllinn morguninn eftir með lestinni frá Brussels til Amsterdam. Á flugvellinum keypti ég mér eina gos á meðan beðið var eftir kalli út í vél og heim var haldið án þess að eyða neinum gjaldeyri sem heitið gat.

Eftir að heim var komið taldi ég 120€ upp úr veskinu mínu.

Hver vill styrkja mig í næstu ferð þar sem reynt verður að bæta ástand transfólks á Íslandi sem og í öðrum löndum? Ég hefi ekki efni á slíku enda löngu komin á hausinn vegna félagsmálastarfa fyrir annað transfólk!


0 ummæli:Skrifa ummæli