mánudagur, apríl 10, 2006

10. apríl 2006 - Samsæriskenningar


Fyrir nokkru var ég stödd niður í bæ þegar sá ágæti maður Elías Davíðsson rétti að mér lítinn bækling þar sem á forsíðunni var mynd af árásinni á tvíburaturnana í New York og yfir myndinni var textinn:
“11. september 2001: Vorum við blekkt”

Mér þótti bæklingurinn forvitnilegur og tók hann með heim þar sem hann lenti í þykka ólesna pappírsbunkanum Nú þegar rúmlega þrjár vikur eru liðnar og ég búin að lesa bunkann ofan á bæklingnum, fór ég að blaðra í þessum bækling.

Margt finnst mér ákaflega athyglisvert í þessum bæklingi sem gefinn er út af 11. september hreyfingunni á Íslandi, en að henni virðast standa Elías Davíðsson og einhverjir óþekktir félagar hans. Þar er gefið í skyn, þótt ekki sé það sagt beinum orðum, að aðrir en Al Kaida hafi staðið að árásunum á New York og Pentagon og dettur manni það helst í hug eftir að hafa lesið bæklinginn, að George Dobbljú Bush og félagar hafi sjálfir staðið að þessum árásum.

Í bæklingnum er því haldið fram að fimm þeirra nítján skæruliða sem taldir voru hafa rænt flugvélunum fjórum 11. september 2001 hafi síðar gefið sig fram við vestræna fjölmiðla. Á móti spyr ég hvers vegna vestrænir fjölmiðlar þögðu yfir þessu? Nöfn þessara nítján einstaklinga voru rækilega kynnt í flestum vestrænum fjölmiðlum dagana eftir árásirnar og er ég þess fullviss að ef einhver þessara einstaklinga kæmi lifandi fram í dag, þá þætti slíkt heimsfrétt og slíkt láta vestrænir fjölmiðlar ekki framhjá sér fara. Nokkur önnur atriði varðandi tvíburaturnana eru tæknilegs eðlis og hirði ég ekki um að eltast við þau öll, en einhver þeirra eru þó sett fram þannig að samsærið virðist augljóst. Eftir stendur sú spurning hver sé svo vitlaus að fórna lífi sínu fyrir brjálæðing að nafni George Dobbljú Bush? Vart fær sá eilífa vist í himnaríki umkringdur 77 hreinum meyjum, frekar færi sá hinn sami beinustu leið til helvítis.

Svo kemur perlan í samsærisbæklingnum. “Okkur hefur verið sagt að reynslulaus flugnemi að nafni Hanjour hafi, 11. september, flogið 60 tonna farþegaflugvél af gerðinni Boeing 757, flugnúmer AA77, á bakhlið Varnarmálaráðuneytisins (Pentagon) í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna án þess að snerta grasið.” Með þessum texta fylgir mynd þar sem merkt hefur verið inn vængbreidd Boeing 757 á byggingunni. Allt er þetta gott og blessað. Á myndinni sést hinsvegar greinilega að flugvélinni hefur verið flogið skáhalt niður í bygginguna en ekki skriðið eftir grasinu. Svo mættu höfundar bæklingsins kynna sér aðeins betur hið sérstaka byggingaform Pentagon og má minna þá á að allar fimm hliðar byggingarinnar eru jafn auðveldar viðfangs og því engin eiginleg bakhlið, nema þá ef vera skyldi miðjugarður fimmhyrningsins sem slapp alveg við tjónið.

Eftir lestur bæklingsins stendur einungis eftir að svara hinu dularfulla hruni WTC-7, sem var 47 hæða bygging og hrundi nokkrum klukkustundum á eftir tvíburaturnunum tveimur.

Ég hefi löngum haft mikið álit á Elíasi Davíðssyni og friðarkenningum hans sem og baráttu hans fyrir lausn Palestínu frá helsi því sem Ísrael hefur búið henni. Í þessum bæklingi finnst mér hinsvegar hann hafa skotið langt yfir markið. Það er miður.

-----oOo-----

Fuglaflensa sú sem herjað hefur á fréttastofu Ríkissjónvarpsins er nú farin að smitast víðar og hefur hún nú lagst þungt á þáttastjórnendur Kastljóss sjónvarpsins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli