þriðjudagur, apríl 25, 2006

25. apríl 2006 - Nöldur á þriðjudagsmorgni


Í síðustu viku heyrði ég talað um þúsund krónu ávísun til bókakaupa. Þessi frétt um þúsund krónur eyrnamerktar góðri bók gladdi mig mjög og það verður ávallt pláss fyrir eina bók í viðbót í hillunum hjá mér. Ég hóf að kanna póstkassann hjá mér á þriðjudag eftir páska. Engin ávísun til bókakaupa lá þar. Bara reikningar. Á miðvikudag var heldur engin ávísun þar og enginn datt tékkinn inn um lúguna á föstudag. Ég fór að verða úrkula vonar. Mér tókst þó að lifa af helgina með drykkjuskap og gleði en án nýrrar bókar og á mánudagsmorguninn mætti ég á vaktina vongóð um að þúsund krónu ávísunin kæmi inn um lúguna þann daginn.

Svo kom ég heim og í póstkassanum var stórt og mikið bréf og án áritunar sendanda. Ég flýtti mér auðvitað að rífa það upp, en engin var þar ávísunin, en glæsilegt boðskort frá stjórnarformanninum sem bauð til samkvæmis til fjalla næstkomandi laugardag. Synd að hann skuli vera að hætta í pólitík.

Ég veit ósköp vel að ég er með gulan miða á póstkassanum mínum til að minna póstburðarfólk á að ég vilji engan ruslpóst. En ég skil ekki alveg hugsunarháttinn hjá póstburðarfólkinu er það flokkar póst í ruslpóst og annan póst. Þannig fæ ég Blaðið á hverjum degi, en Fréttablaðið fæ ég bara um helgar. Ég fæ allskyns auglýsingabæklinga, en engin Bókatíðindi og engan IKEA-bækling fæ ég frá Gunnubúð.

Enga bókaávísun fékk ég heldur frá bókaverslunum. Póstburðarfólkið telur kannski bækur með rusli. Það finnst mér synd.

-----oOo-----

Ég hefi verið að velta fyrir mér þessum fjölda ungra ökumanna sem hafa verið teknir fyrir ofsaakstur eða kappakstur að undanförnu svo ekki sé talað um stúlkuna sem lést í kappakstri fyrir nokkru síðan. Mér finnst þetta vera hið versta mál, en spyr þess um leið hvort ekki sé eitthvað að umferðarfræðslunni? Það er rekið Umferðarútvarp á Íslandi. Tvö þeirra sem stjórna þessu Umferðarútvarpi eru ágæt og gefa ökumönnum allskyns góð ráð auk allskyns almennra tilkynninga um umferðina sem mættu reyndar vera oftar, en þriðji aðilinn sem ég heyri oftast, hljómar alltaf eins og fýlupúki. Hann kvartar stöðugt yfir of miklum hraða. Flestir hans pistlar ganga út á að draga úr umferðarhraða og án þess að skýra þetta nánar, svona eins og dæmigerður nöldrari. Því fara bænir hans fyrir ofan garð og neðan hjá flestum ökumönnum og hann missir marks. ... (segir ein sem var sektuð fyrir 61 km hraða árið 1985 þar sem hámarkshraðinn var 50 km þótt það væru tvær akreinar í hvora átt).


0 ummæli:







Skrifa ummæli