fimmtudagur, apríl 27, 2006

27. apríl 2006 - Ein hinna fremstu ofl.


Á ILGA-ráðstefnunni í Genf á dögunum um transgender málefni, fjallaði kona ein frá Venezuela um stöðu transgender fólks í Rómönsku Ameríku og kom þar margt merkilegt í ljós, en um leið voru helstu jákvæðu fréttirnar frá þeim heimshluta frá Kúbu. Konan frá Venezuela kunni að orða hlutina í réttu samhengi, dró miskunnarlaust fram hið neikvæða um leið og hún hrósaði hinu jákvæða, benti á grimmileg örlög fjölda transgender fólks í Rómönsku Ameríku og hvatti til aðgerða.

Á kvöldin var hún fremst allra að taka þátt í skemmtunum sem óhjákvæmilega fylgja slíkum ráðstefnum. Það var ekki hægt annað en að taka eftir henni, sífellt hlæjandi og geislaði af henni hvar sem hún fór. Við ræddum nokkrum sinnum saman í alvöruleysi á skemmtunum, en að öðru leyti vissi ég ekkert um hagi hennar annað en að hún hafði farið í gegnum aðgerðarferli á áttunda áratug síðustu aldar. Ég varð því að lesa mér til um hana eftir að heim var komið og tími vannst til að lesa gögn sem hún vísaði mér á.

Dr. Tamara Adrian reyndist vera hámenntuð í lögfræði, kennir við Háskólann í Caracas í Venezuela og stjórnar lögfræðistofu fjölskyldu sinnar sem hefur verið starfrækt í um 80 ár. Að auki hefur hún fengist við stjórnmál á síðustu misserum og verður hugsanlega fyrst í okkar hópi til að ná verulegum frama á þeim vettvangi. Eitt er öruggt, en það er að skemmtileg framkoma hennar og frábærir eiginleikar við að setja fram hugðarefni sín á prenti eða orðræðu mun ekki skemma fyrir henni.

Tamara er sú í gula bolnum á myndinni ásamt löndu sinni og samferðakonu.

-----oOo-----

Ég var að hugleiða þennan kappakstur ungmenna á götum Reykjavíkur og rifjaði í leiðinni upp þann tíma er ég fór sjálf í bílprófið, fjórum dögum áður en heimsmethafinn geðþekki fæddist. Um leið hafa gengismál Íslendinga verið mikið í umræðunni og smám saman rifjaðist upp fyrir mér eitt lítið atriði varðandi bílprófið.

Þegar elsti bróðir minn fór í bílprófið sitt í janúar 1958 gaf faðir minn honum 500 krónur sem dugðu að mestu fyrir ökutímunum og prófinu. Svo liðu árin með gengisfellingum og miklum hagsveiflum og í hvert sinn sem eitthvert systkina minna fór í bílpróf rétti faðir minn viðkomandi barni 500 krónur. Ég kom síðust í röðinni og þegar ég fékk mitt ökuskírteini í lok desember 1968 afhenti faðir minn mér 500 krónur sem dugðu fyrir einum ökutíma hjá ökukennara.

-----oOo-----

Ólafur Ragnar Grímsson forseti fór ásamt fríðu föruneyti austur á Hornafjörð á dögunum í opinbera heimsókn. Ekki velti ég þessari heimsókn mikið fyrir mér, enda ákaflega lítið hrifin af þessum manni þótt ég hafi greitt honum atkvæði mitt fyrir tveimur árum sem skásta kostsins af þremur slæmum. Það er bara eitt sem ég næ ekki alveg. Ólafur Ragnar Grímsson á að vera forseti allrar þjóðarinnar, einnig Skaftfellinga. Hvernig getur hann þá farið í opinbera heimsókn til sjálfs síns sem hlýtur því að vera allt ríkið Ísland? Hann má gjarnan ferðast um landið að vild og er það betur en þegar hann er að leika sér á skíðum í útlöndum á kostnað íslensku þjóðarinnar eða að ferðast með rússneska arðræningjanum Róman Abramóvits, en ég er bara óhress með að þetta skuli kallað “opinber heimsókn”.


0 ummæli:







Skrifa ummæli