fimmtudagur, apríl 20, 2006

20. apríl 2006 - Söknuður


Þarfasti þjónninn minn gaf upp öndina í gær eftir 22 ára dygga þjónustu við mig og mína. Hann var reyndar hún og fylgdi mér í gegnum súrt og sætt og fékk stundum óblíða meðferð hjá mér, en ávallt þjónaði hún mér og gestum mínum af alúð og tryggð.

Á síðustu árum var ljóst að það styttist í endalokin hjá henni. Hún hélt illa vatni þótt ávallt gætti hún þess að veita mér þann yl sem var nauðsynlegur í þrengingum hversdagsins. Í fyrradag var ljóst að meinið var farið að breiðast út er ég veitti því athygli að það var kominn stærðar vatnspollur í kringum hana. Lekinn var farinn að ágerast og ljóst að ekki gæti hún sinnt hlutverki sínu lengur án hættu á skaða fyrir umhverfi sitt. Því kvaddi ég gömlu góðu Philips kaffivélina mína með virktum, þessa góðu græju sem hafði fylgt mér allt frá því viku eftir hjónaskilnað fyrir 22 árum og aldrei kvartað yfir meðferðinni á sér.

Nú er komin ný kaffivél í eldhúsið hjá mér sem sögð er hafa sömu eiginleika og gamla Philips kaffivélin mín og hellir uppá úrvalskaffi beint í hitabrúsann eins og sú gamla gerði, en bara með helmingi öflugra hitaldi fyrir hraða uppáhellingu. Ég á þó ekki von á að hún endist jafnlengi og sú gamla þótt hún sé af þýsku gæðamerki.

-----oOo-----

Mér barst kveðja í gær norðan úr landi frá konu einni sem var mér sammála um orð mín í garð brandarakarls þess sem reytti af sér brandara yfir landslýð á páskadagsmorgun. Kveðjan var svohljóðandi:

Biskup sagði brandara
býsna gamla og lúna,
á leið í "uppistandara"
ætlar að "dissa" trúna.

-----oOo-----

Í gærkvöldi tókst Gránufélaginu að ýta hetjum vorum í Halifaxhreppi niður um eitt sæti í ensku kvenfélagsdeildinni með því að sigra Skarnaborg með sjö mörkum gegn tveimur. Betur má ef duga skal því ég óttast að þetta verði endanleg úrslit í deildinni í ár og þýðir það væntanlega að Halifaxhreppur mun lenda í umspili um sæti í langneðstu deild við þetta sama Gránufélag.

-----oOo-----

Með þessum orðum vil ég óska öllum nær og fjær gleðilegs sumars með þökkum fyrir veturinn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli