föstudagur, apríl 28, 2006

28. apríl 2006 - Er Zygmarr eitthvað klikk?


Er Zygmarr eitthvað klikk?

Þessi orð mín má ekki túlka bókstaflega á þann hátt að ég telji Sigmar Guðmundsson fréttamann klikkaðan þótt fuglaflensan hafi hrjáð Kastljós sjónvarpsins um tíma, heldur er þetta svar mitt við orðum hans gagnvart sænsku þjóðinni á miðvikudaginn, en þar skildi Sigmar ekkert í því af hverju borgaryfirvöld í Stokkhólmi höfnuðu beiðni um risaauglýsingu á Stureplan á Östermalm. Pistill hans á blogginu undir fyrirsögninni Nærbuxnaklám hófst nefnilega með þessum orðum: Svíar eru klikk. Jafnvel meira klikk en Norðmenn.

Ég fór að kynna mér málið. Morgunblaðið las það úr viðtali við umboðsmann nærbrókaframleiðandans Calvin Klein í Svíþjóð að borgaryfirvöld vildu ekki svona klámfengna útiauglýsingu, en sjálfir héldu starfsmenn Stokkhólmsborgar því fram við Dagens nyheter að auglýsingunni hefði verið hafnað sökum stærðar hennar og staðsetningar.

Hugmynd nærbrókaframleiðandans var sú að reisa 360 fermetra auglýsingu á Stureplan í hjarta Östermalm í Stokkhólmi, auglýsingu sem myndi bera allt umhverfi sitt ofurliði sökum stærðar sinnar. Höfnun þessarar auglýsingar þóttu umboðsmanni Calvin Klein, Morgunblaðinu (íþróttafréttaritaranum?) og Sigmari Guðmundssyni hið versta mál sem endurspeglast í orðum hans um að Svíar séu klikk.

Ég fór að leika mér að tölum um stærð þessa skiltis. 360 fermetrar eru ekkert smáræði og sést vel hve það er mikið í andstöðu við umhverfið á tilbúinni mynd frá Aftonbladet í Stokkhólmi. Ef umræddum nærbrókaframleiðanda dytti í hug að setja viðlíka skilti upp í Reykjavík, þá myndi það þekja fjórar efstu hæðirnar á Morgunblaðshöllinni og Tryggingamiðstöðinni til samans. Ég er hrædd um að ef slíkt skilti yrði heimilað, yrðu borgaryfirvöld sögð vera klikk, jafnvel þótt á skiltinu væri uppáhaldsíþróttamaður Sigmars Guðmundssonar, Fredrik Ljungberg leikmaður enska fótboltafélagsins Rassenal. (Að mati Sigmars er umræddur Ljungberg klikk, því hann er sænskur og Svíar eru klikk samkvæmt orðum hans) Prófum að skipta um mann á skiltinu og setjum í staðinn Eið Smára Guðjohnsen varamann í ensk-rússneska liðinu Seltjörn og setjum það upp á sama stað. Þá yrði ég hrædd um að Sigmar Guðmundsson myndi telja einhverja vera klikk. Sjálf myndi ég aldrei samþykkja slíkt skilti ef ég mætti ráða, jafnvel þótt hinn sókndjarfi og glæsilegi markaskorari Fótboltafélags Halifaxhrepps, sjálfur Ryan Sugden beraði sig á nærhaldinu einu á skiltinu.

Nei, skipulagsyfirvöld í Stokkhólmi (Stadsbygnadskontoret) eru ekkert klikk, ekki fremur en sænska þjóðin. Það er hinsvegar álitamál hvort yfirmenn nærbrókaframleiðandans Calvin Klein og þeir sem eru fylgjandi slíku brjálæðislegu auglýsingafári, þar með talinn sá sem kallar helstu vinaþjóðir Íslands klikk, séu eitthvað klikk!

-----oOo-----

Eftir að ég las pistil Sigmars frá fimmtudeginum þar sem hann heldur enn uppi uppi látlausri skothríð á sænska velferðarkerfið, þá sá ég að hann er enn illa haldinn af fuglaflensunni og kominn með bæði lungnabólgu og kvef í ofanálag. Ég óska honum því góðs bata og að hann muni lagast í skapi með söng lóunnar og hlýrra veðri. Ég á svo í fórum mínum glansandi fínan og íslausan varmaorkufrisbídisk frá Orkuveitunni sem ég skal afhenda honum við fyrsta tækifæri þegar honum batnar Svíagrýlan.

-----oOo-----

Svo er Rassenal aðdáandi númer 2 á Íslandi orðin sármóðguð út í Sigmar Guðmundsson.


0 ummæli:







Skrifa ummæli