laugardagur, apríl 15, 2006

15. apríl 2006 - Loksins, loksins

Loksins er þessum laaaanga föstudegi lokið. og laugardagur að renna upp bjartur og fagur. Einhvernveginn tókst mér að láta nefið í friði allan daginn, enda á vakt til klukkan 20.00. Ég er strax farin að horfa björtum augum til næstu hátíðar, enda bíður mín páskaegg númer 7 fyllt með konfekti inni í skáp. Fyrst verð ég þó að vinna fyrir því, en það geri ég á næturvaktinni, aðfararnótt páskadags.

Ég heyrði á viðtal fréttakonu Stöðvar 2 (eða NFS) við séra Jónu Hrönn Bolladóttur sóknarprest þar sem hún var beðin að gefa álit sitt á opnum verslunum á föstudaginn langa. Hún svaraði með því að benda réttilega á að það væri sitthvað, að halda tryggð við hefðirnar eða trúna. Hárrétt. Ég hefði ekki getað orðað þetta betur.

-----oOo-----

Það ríkir algjör gúrkutíð á fréttatofu Ríksútvarpsins. Fyrsta frétt seinnipart föstudagsins langa og margendurtekin, var um að Tsad hefði slitið stjórnmálasambandi við Súdan. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og gæti endað með því að einhverjir færu að slást í Sahara um einhver sandkorn þarna suðurfrá.

-----oOo-----

Hetjurnar okkar í Halifaxhreppi gerðu jafntefli við Stefánsborg í kvenfélagsdeildinni á föstudagskvöldið. Ég hafði reyndar komið þeim skilaboðum til þeirra að halda ólympíuhugsuninni í hávegum, en þar sem þær höfðu ekki tapað leik á heimavelli í kvenfélagsdeildinni í vetur, urðu þetta ásættanleg úrslit. Næstu tveir leikir munu fara fram á útivelli og þær eru til alls vísar í næstu leikjum. Það getur reyndar orðið erfitt að koma þeim niður í sjötta sæti úr því sem komið er, en það má vona hið besta. Línur fara að skýrast á mánudag.

-----oOo-----

Svo á Vigdís Finnbogadóttir afmæli í dag og sjálfsagður og góður siður að óska henni til hamingju með afmælið og að hún megi eiga mörg góð ár eftir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli