sunnudagur, apríl 23, 2006

23. apríl 2006 - Lögguleikur - endurtekið


Það var eldsnemma á laugardagsmorgni, kannski tveimur árum eftir að ég flutti til Svíþjóðar. Blíðskaparveður. Ég átti vakt klukkan hálfsjö í orkuverinu í Hässelby í úthverfi Stokkhólms og þurfti því að ná strætisvagninum sem fór frá Jakobsberg Centrum klukkan hálfsex um morguninn. Það ferðast fátt fólk með strætisvagni klukkan hálfsex á laugardagsmorgni, einnig í Svíþjóð.

Þegar ég sté upp í þennan fyrsta strætisvagn morgunsins var ég eini farþeginn auk bílstjórans og gat því teygt vel úr mér þaðan sem ég sat aftast í vagninum. Vagninn hélt áfram og þræddi ætlaða leið sína um Veddesta og kom eftir skamma stund að brautarstöðinni í Barkarby. (Barkarby station) Þar beið vagninn smástund eftir klukkunni áður en hann lagði af stað í átt til Hässelby.

Skammt frá brautarstöðinni er örstuttur kafli þar sem aðeins er leyfður 30 km hámarkshraði. Ég veitti því eftirtekt að fullmönnuð lögreglubifreið var kyrrstæð við þennan vegarkafla. “Jæja, á nú að reyna að nappa einhvern fyrir að keyra yfir 30?” hugsaði ég. Áfram hélt vagninn eftir Skälbyvägen. Þegar vagninn fór framhjá gatnamótunum við Byleden þar sem einnig er 30 km hámarkshraði, veitti ég því athygli að það beið önnur fullmönnuð lögreglubifreið á gatnamótunum. “Fífl þessar löggur, að vera að eltast við einhvern sem keyrir aðeins yfir hámarkshraða klukkan sex að morgni.”

Vagninn hélt áfram eftir Skälbyvägen, en er hann endaði var beygt inn á Växthusvägen samkvæmt áætlun vagnsins. Þá skyndilega varð hann að stöðva því lögreglubifreið hafði verið lagt þversum á veginn framundan og í skjóli við lögreglubifreiðina voru menn með byssur á lofti og beindu að strætisvagninum. Ég fór að kíkja í kringum mig og það var ekki um að villast. Strætisvagninn var umkringdur lögreglubílum og byssur á lofti hvar sem litið var og ég var einasti farþeginn. “Úff, hvað hefi ég nú gert af mér?” Ég veitti því athygli að einhverjar löggur hlupu í hnipri meðfram hlið vagnsins og að inngangnum að framan sem hafði verið opnaður.

Einn lögregluþjónn kom hálfur inn í vagninn og kallaði eitthvað afturí vagninn. Ég stóð upp og labbaði framar í vagninn. “Varstu að kalla í mig?” spurði ég móti. Þá stóð lögreglumaðurinn upp og bað mig um að sýna sér skilríkin mín til öryggis. Ég gerði það og þá fór hann að segja mér að stórhættulegur og síðhærður strokufangi hefði sést síðla nætur í Jakobsberg og þessvegna hefðu þeir verið með þennan mikla viðbúnað er þeir sáu álengdar síðhærða manneskju í strætisvagninum. Hann bað mig svo margfaldlega afsökunar á ónæðinu en bætti svo við: “Mundu samt eftir að rétta upp hendurnar og sýna opna lófana ef þú lendir í svona aðstæðum aftur og þér er sagt að koma fram með uppréttar hendur”. Að svo búnu héldu lögreglumenn og bifreiðar í burtu.

Ég hélt hinsvegar áfram með strætisvagninum að Hässelby Strand og náði að mæta í vinnuna á réttum tíma og áleitinni hugsun sló niður í höfuðið á mér: “Fífl þessar löggur að halda að strokufangar taki sér far með strætisvagni á flótta undan löggunni!”

Birtist áður 27. febrúar 2005.

-----oOo-----

Það blæs ekkert byrlega fyrir hetjunum í Halifaxhreppi sem gerðu lélegt jafntefli við Kröflubæ í gær. Þær eiga tvo leiki eftir, en til að komast hjá umspili um sæti í langneðstu deild þurfa þær að tapa báðum leikjunum sem eftir eru, en auk þess verða strákarnir í Stefánsborg að vinna eina leikinn sem þeir eiga eftir.

Þetta verða erfiðir leikir hjá hetjunum okkar því þeir eru báðir á heimavelli gegn liðum sem eru neðan við miðja deild, annar við Grafarenda og hinn við Könnueyju.

Af öðrum íþróttafréttum er þess helst að geta að ég get glatt Þórð sjóara og Gunnu í Gunnubúð með því að heimsmethafinn geðþekki setti enn eitt heimsmetið í gær með sínum 66. ráspól og því ber að sjálfsögðu að fagna rétt eins og öllum hinum heimsmetunum hans. Heimsmethafinn hefur tekið þátt í 235 mótum í Formúlunni og unnið 84 þeirra sem er að sjálfsögðu heimsmet.

Þess má geta að til er skýring á fýlunni í finnska ísklumpnum sem Gunna og félagar halda með, en eftirfarandi skýringu fann ég á Wikipedia:
Räikkönen was asleep 20 minutes before his first F1 GP (He loves to sleep - so much so that he needs to be woken up before qualifying and races. Þess má geta að sá drengur hefur tekið þátt í 90 mótum og unnið níu þeirra sem er alveg prýðilegur árangur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli