fimmtudagur, apríl 13, 2006

14. apríl 2006 - Lengsti dagur ársins

Eins og allir vita er föstudagurinn langi einhver þægilegasti dagur ársins. Það er allsstaðar lokað og ekkert hægt að gera af sér nema liggja á meltunni og njóta letinnar. Ef mann langar í bíó, er það ekki hægt af því að einhver kall var hengdur eða krossfestur þennan dag fyrir um það bil 1973 árum síðan. Eins og allir vita eru 100% íslensku þjóðarinnar rammkaþólsk og því miklvægt að halda í þessar fornu og löngu úreltu hefðir. Sömu sögu er að segja af lönguninni að skreppa á ball eða bara að skreppa á krána. Einasta skemmtunin sem hægt er að veita sér þennan dag, er að fara á kojufyllirí eða bora í nefið. Þótt ég telji mig kristna manneskju, gef ég ekkert fyrir þessar kreddur eins og banni við öllu skemmtilegu.

Heppnin er með mér þetta árið. Ég er á vakt alla páskana og því einnig á tólf tíma vakt á föstudaginn langa. Fyrir bragðið fæ ég ágætlega greitt fyrir að dunda mér á vaktinni allan daginn í stað þess að sitja heima og plokka út úr nefinu á mér.

-----oOo-----

Framsóknarflokkurinn og hinn sparsami Frjálslyndi flokkur eru byrjaðir að birta heilsíðuauglýsingar í blöðum meira en sex vikum fyrir kosningar. Það er greinilegt að það ríkir mikill ótti í tvennum herbúðum fyrir kosningarnar í vor. Eins og gefur að skilja, nær stuðningur minn við Alfreð ekki til Björns Inga sem ég hefi að auki rekið úr ætt við mig og enn síður til Flugvallarvinanna í Frjálslynda flokknum. Að öðru leyti er eitt stykki atkvæði á lausu.

-----oOo-----

Ég heyrði ekkert minnst á fuglaflensu í sjónvarpinu á skírdag. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég var ekki að hlusta af mikilli athygli, en eins getur verið að það sé vegna þess að starfsfólk Kastljóssins lá heima í fuglaflensu og því ekkert Kastljós.


0 ummæli:







Skrifa ummæli