þriðjudagur, apríl 18, 2006

18. apríl 2006 - Brandarar


Á páskadag messaði biskup Íslands í dómkirkjunni og reitti af sér brandarana að venju. Lét hann nokkrar vel valdar skrýtlur falla sem áttu uppruna sinn í Biblíunni. Þrátt fyrir brandara sína, virtist sem kirkjugestir væru ekki alveg sammála biskup, því enginn hló og ekki tók biskup bakföll eins og Ómar Ragnarsson.

Með bröndurum sínum hélt biskup uppteknum hætti frá því sem hann byrjaði með í nýjárspredikun sinni, en hann fagnaði nýju ári með nokkrum vel völdum hommabröndurum. Fáum kom þó hlátur í hug í það skiptið, ekki fremur en nú og er spurningin hvort biskup þurfi ekki að ráða sér ímyndarsmið og uppistandara til að kenna sér að segja brandara.

Annars má ég ekki við því að hallmæla biskup. Eins og áður hefur komið fram, átti hann góðan þátt í að kasta mínu gagnkynhneigða hjónabandi á ruslahaugana og skal það reiknast honum til tekna. Um það má þó deila hvort hjónaband það hafi verið gagnkynhneigt, en samkvæmt nýlegum kenningum um kyngerfi, má eiginlega telja hjónabandið umrædda sem samkynhneigt þótt annar aðilinn hafi aðrar skoðanir á málunum.

-----oOo-----

Enn hallar undan fæti hjá hetjunum fótfimu í Halifaxhreppi, en þær unnu Jórvíkurborg með tveimur mörkum gegn engu í kvenfélagsdeildinni í gær. Það er víst ekki í fyrsta sinn sem Jórvíkurborg lætur í minni pokann fyrir miklum hetjum, en það ku hafa verið alvanalegt á fyrri tímum. Með þessum sigri virðist fátt geta komið í veg fyrir að Halifaxhreppur lendi í umspili um sæti í langneðstu deild á hausti komanda. Við getum þó huggað okkur við að í umspilinu munu þær sennilega leika gegn Gránufélaginu um sætið í botndeildinni. Gránufélagið er eitt helsta spútnikliðið í kvenfélagsdeildinni, kom úr neðstu kvenfélagsdeild í fyrra og áður úr einhverri deild sem ég kann ekki að nefna, en í þeirri deild spila lið á borð við Billerycaihrepp, Töðubrú og Rauðubrú auk hins sigursæla og nýlega stofnaða Wimbledon sem er þó ekki hið sama sem hinn norski Kjell Inge Rökke keypti um árið og setti á hausinn og er nú kennt við Milton Keynes og stefnir hraðbyri niður í langneðstu deild. Ljóst er að ef Halifaxhreppur hverfur á braut, mun hið unga Wimbledon fá að njóta aðdáunar minnar á meðan.


0 ummæli:







Skrifa ummæli