miðvikudagur, apríl 12, 2006

12. apríl 2006 - Af kisum ofl

Kisurnar mínar áttu ársafmæli í gær. Eins og gefur að skilja, gerðu þær sér dagamun í mat og drykk, átu rækjur og úrvals soðningu í öll mál og harðfisk og rjóma í eftirmat. Ekki voru þær einar um hituna því þær fengu gesti í afmælisveisluna sem nutu matarins ekki síður en þær sjálfar. Sjálf var ég á fullu allan daginn að elda meiri fisk og veita meiri rjóma og þær átu og drukku og voru glaðar.

Nú liggja þær afvelta í rúminu mínu og halda að framtíðin sé björt og fögur og svona verði allir dagar í framtíðinni. Ég held nú síður. Í dag verður bara tros í matinn.

-----oOo-----

Linda Blöndal er ein af uppáhalds útvarpsmanneskjunum sem ég heyri, meðal annars sökum einstakrar glettni sinnar og hvatvísi. Í gær var hún að ræða við ónefndan hljómlistarmann í tilefni af blúshátíð í Reykjavík. Sá hinn sami sagði frá því er hann þurfti einhverju sinni að bíða eftir að komast á sviðið og sagðist hafa talið 800 salerni á meðan hann beið.
“Þurftirðu að bíða svona lengi?” spurði Linda að bragði.

-----oOo-----

Enn virðist fuglaflensan hrjá þáttagerðarmenn Kastljóssins. Í gærkvöldi var rætt við heilbrigðisstarfsfólk og þá kom í ljós sú einfalda staðreynd að fuglaflensa af stofninum H5 hefur aldrei stökkbreyst eða smitast á milli manna og ekkert meiri hætta nú en endranær. Til hvers var eiginlega verið að hræða úr okkur líftóruna? Ég sem var orðin dauðhrædd og búin að panta mér tíma hjá dýralækninum því engir venjulegir læknar vildu vita af þessu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli