miðvikudagur, apríl 05, 2006

5. apríl 2006 - Gúrkutíð

Helstu fréttirnar í íslenskum fjölmiðlum í gær voru um Baugsmál. Ekki voru þau einungis í þeim fjölmiðlum sem Baugur á stóran hluta í, heldur einnig í öðrum fjölmiðlum, Morgunblaðinu, sjónvarpi og útvarpi allra landsmanna. Þó eru flestir búnir að fá sig fullsadda af þessum málatilbúnaði og engin ný tíðindi eru í vændum af þessu margtuggða dómsmáli.

Í nærri fjögur ár hafa íslenskir fjallað um þetta mál sem mál málanna. Það hefur nákvæmlega verið farið ofan í sérhvern saum á því afturábak og áfram og og loks þegar einhver dómur féll, var ljóst að hér væri orðin pattstaða. Nú eru komnar fram nýjar ákærur í gömlu málinu, ný dómsmál vegna þess að hinu fyrra var klúðrað og svona mun þetta mál halda áfram í eitt til tvö ár í viðbót, jafnvel lengur.

Þetta minnir mig að sumu leyti á mál sem ég lenti í meðan ég bjó í Svíþjóð. Ég hafði lagt bílnum niðri í bæ þar sem ég taldi mig vera á frístæði, en þegar ég kom aftur að bílnum var komin stöðumælasekt á bílinn að upphæð 700 sænskar krónur (um 6500 íslenskar krónur). Eftir að heim var komið skrifaði ég rukkunarfyrirtækinu bréf þar sem ég mótmælti sektinni. Þeir héldu kröfunni samt til streitu og loks endaði málið fyrir Stockholms tingsrätt þar sem sektin var felld niður með dómi. Skömmu síðar fékk ég enn eina ítrekunina um að greiða sektina, en þá var ég orðin svo reið að ég tilkynnti rukkunarfyrirtækinu að ég myndi kæra þá fyrir fjárkúgun ef ég fengi eitt einasta bréf frá þeim aftur. Þá fyrst linnti hótunum af þeirra hálfu.

-----oOo-----

Það eru komnar nokkrar myndir inn á netið hjá mér


0 ummæli:







Skrifa ummæli