laugardagur, apríl 29, 2006

29. apríl 2006 - Eru Íslendingar þá klikk?

Um daginn komst Sigmar Guðmundsson fréttamaður að því að Svíar og Norðmenn eru klikk og að sjálfsögðu var Rassenal aðdáandinn Polly sammála honum. Féllust þau svo í andlega faðma í hrifningu á hinum klikkaða Rassenal leikmanni Fredrik Ljungberg. En upp komast svik um síðir. Það voru Íslendingar sem stoppuðu af uppsetningu skiltisins í Stokkhólmi ef marka má nærbrókaumboðsmanninn Hans Lindeblad hjá Calvin Klein.

Þegar símaskráin er skoðuð kemur í ljós að útibú KB-banka í Stokkhólmi er að Stureplan 19, í skugganum af umræddum auglýsingarstað. Að sögn margumrædds umboðsmanns voru það forráðamenn KB-banka í Stokkhólmi sem óskuðu eftir umræddu skiltabanni. Það er því ljóst að ekki einungis Svíar hafa þurft að líða fyrir orð Sigmars Guðmundssonar. Úr því Svíar eru klikk vegna þessa skiltabanns, þá hljóta Íslendingar sem báðust þess að skiltið yrði ekki sett upp að vera enn frekar klikk. Svo vitnað sé enn frekar í Sigmar átaldi hann Svía fyrir forræðishyggju vegna skiltisins. Hann hlýtur þá að álíta Íslendinga vera enn frekar klikk og enn meiri forræðishyggjuþjóð og þar með sjálfan sig. Svo dregin sé ályktun af orðum Sigmars Guðmundssonar: Sigmar er klikk!

-----oOo-----

Þá hefur DV tekist að grafa sína eigin gröf. Með siðleysisstefnu Jónasar Kristjánssonar þar sem leyfilegt var að birta allt og enginn griður gefinn, fékk fólkið í landinu nóg og hætti að kaupa DV. Eftir það nægði ekki lengur að sparka ritstjórunum. Skaðinn var skeður og blaðið hætti að seljast.

Á undanförnum vikum hafði ég veitt athygli nokkurri breytingu til hins betra hjá blaðinu, t.d. vildu þeir ekki birta viðtal við mig sem tekið var um miðjan mars og er það merki um betri og mun ábyrgari ritstjórnarstefnu en áður hafði verið við lýði. Þetta þóttu bæði mér og öðrum skýrt dæmi um að DV vildi bæta sig og komast í hóp jákvæðra og menningarlegra fjölmiðla sem aldrei fyrr.

Ég ætla ekki að tjá mig frekar um stöðvun útgáfunnar að sinni. Hinsvegar á nýlega ráðinn og nú brottrækur menningarritstjórinn, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, samúð mína alla vegna þessa máls. Um leið vona ég að hún fái nýtt starf og nýja ábyrgð sem fyrst aftur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli