föstudagur, apríl 21, 2006

21. apríl 2006 - Hvað um útflytjendur?


Ónefndur pulsusali hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna daga vegna álits síns á innflytjendum. Hann hefur sérstaklega látið í ljós hræðslu sína við það sem mun ske 1. maí næstkomandi. Ekki veit ég til hvers.

1. maí næstkomandi munu íbúar frá tíu ríkjum Austur-Evrópu fá aðgang að Íslandi án sérstaks atvinnuleyfis. Ekki veit ég hvaða réttindi við fáum á móti í ríkjum þeirra, en mig grunar að þetta gefi okkur um leið heimild til að setjast að og starfa í ríkjunum tíu rétt eins og þeir mega setjast að hér á landi. Þá þykist ég vita að þetta gefi Íslendingum einnig rétt til að stofnsetja fyrirtæki í viðkomandi ríkjum, kaupa jarðir og húseignir í þessum löndum án sérstakra leyfa sem áður var krafa. Vinafólk mitt frá Finnlandi keypti jörð í Eistlandi fyrir lítinn pening fyrir nokkrum árum og getur búið þar að vild. Því ekki Íslendingar í Slóvakíu eða Ungverjalandi? Ég get vel ímyndað mér að hægt sé að komast yfir ódýrt sumarbústaðaland þar fyrir brot af því verði sem Íslendingar eru að leggja í jarðir á Spáni.

Af hverju ekki að sjá kostina við sameinaða Evrópu í stað þess að rýna í gallana?

Ég skal viðurkenna það að þegar ég kom til Slóvakíu síðastliðið haust og kom útúr flugstöðinni í Bratislava, fannst mér lyktin fyrir utan minna mig á gamla Sovétið á áttunda áratug tuttugustu aldar og ég fékk bullandi heimþrá. Sovéttilfinningin hvarf þó um leið og stigið var upp í hópferðabílinn sem flutti okkur frá flugvellinum og trúi ég ekki öðru en að þessi ríki séu langt komin með að aðlagast fjárhagskerfi Vestur-Evrópu svo það er bara að drífa sig í að kaupa jarðarpartinn.

-----oOo-----

Svo ætla ég að gera tilraun til að setja inn mynd af gömlu góðu kaffivélinni sem gaf upp öndina, rétt eins og þegar Þórður setti inn myndina af Ésúskónum sínum á bloggið þótt þeir hefðu átt betur heima á Þjóðminjasafninu.

-----oOo-----

Loks fær Siggi E. vinnufélagi minn hamingjuóskir með sjötugsafmælið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli