miðvikudagur, apríl 26, 2006

26. apríl 2006 - Um Guðhræðslu og góða siði


Ég rak augun í frétt á visir.is þess efnis að búið væri að samþykkja frumættleiðingar samkynhneigðra í Belgíu. Þetta er hið besta mál og hafa Belgar staðið í fremstu röð þjóða þegar kemur að jafnrétti þegnanna. Þess má og geta að Belgar hafa fyrstir allra afnumið kröfuna um hjónaskilnað þegar kemur að því að transsexual persóna leggist undir hnífinn til leiðréttingar á kyni sínu. Þessi krafa er hvort eð er orðin úr takt við tímann með heimild í lögum margra ríkja um staðfestar samvistir eða hjónabönd samkynhneigðra.

Auðvitað komu andmæli við fréttinni á visir.is. Hvað annað? Sjálfur Jón Valur Jensson guðfræðingur sá ástæðu til að mótmæla þessum lögum í Belgíu og vonast jafnframt til þess að frumvarpið um frumættleiðingu samkynhneigðra á Íslandi verði fellt. Þess má geta að sá hinn sami Jón Valur Jensson var í hópi um tuttugu einstaklinga auk sértrúarsafnaða sem mótmæltu óskum samkynhneigðra um að fá kirkjulega hjónavígslu.

Fyrir nokkrum árum síðan heyrði ég hann lýsa hrifningu sinni á ríkismorðum (dauðarefsingum) í einhverjum útvarpsþætti. Ég hefi enn ekki heyrt hann lýsa yfir hrifningu sinni á George Dobbljú Bush eða pótentátum hans, Dick Cheney og Donald Rumsfeld. Ég vænti þess að heyra það fljótlega.

-----oOo-----

Hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi tóku Grafarenda í nefið í næstsíðasta leik kvenfélagsdeildarinnar á heimavelli Halifaxhrepps í gærkvöldi og hafa þar með tryggt sér að lenda ekki neðar en í fjórða sæti að aflokinni deildarkeppninni og þar með leiki í umspili um sæti í langneðstu deild. Hérafordsteikurnar sem eru í öðru sæti eru þó einungis tveimur stigum ofar og Gránufjelagið einu stigi ofar. Því er ljóst að síðasta umferð á laugardaginn kemur, getur farið á hvern veg sem er. Því er ekkert hægt að segja um það á þessari stundu hver spilar á móti hverjum í umspilinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli