miðvikudagur, ágúst 13, 2008

13. ágúst 2008 - Afmælisveisla Gurríar


Gurrí bloggvinkona hélt upp á 37 ára afmælið plús á þriðjudag og ég var þar að venju, mætti fyrst allra með kaffikönnurnar og kaffið. Þar var múgur og margmenni að venju, Dóri „frændi“ og Páll Óskar, Guðrún Vala og Sigga Jósefs og öll hin.

Af öllu góðu fólki sem ég hitti, var samt skemmtilegast að rekast á einn fyrrum nágranna úr Mosfellsdalnum sem ég hafði ekki hitt í rúm 40 ár, Daða frá Reykjadal. Eins og gefur að skilja var erfitt fyrir mig að þekkja hann aftur enda talsvert breyttur frá því hann var fimm eða sex ára og ég fáeinum árum eldri. Ég lenti reyndar í því að eiga í erfiðleikum með að þekkja systur hans aftur sem þó er aðeins einu ári yngri en ég þegar ég hitti hana í fyrra. Elst þeirra systkina er slökkviliðsstjórinn á Selfossi og sá eini þeirra sem ég hefi enn ekki hitt í þessa fjóra áratugi, en jafnframt sá eini sem ég myndi þekkja aftur hvenær sem væri.

Þegar ég yfirgaf samkvæmið þá hæst það stóð, var fólk enn að streyma að færandi hendi, rétt eins og væri afmælisbarnið fimmtugt.


0 ummæli:Skrifa ummæli