laugardagur, ágúst 02, 2008

2. ágúst 2008 - Þjóðhátíð 93

Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá ætla ég ekki að skrifa um þjóðhátíðina 93, enda bjó ég í Svíþjóð á þeim tíma og hafði allt öðrum hnöppum að hneppa en að djamma frá mér allt vit og rænu á þeim tíma.

Reyndar hefi ég ákaflega litla reynslu af þjóðhátíðum í Vestmannaeyjum þótt ég hafi búið þar um nokkurra ára skeið. Ég átti þess kost að mæta á þjóðhátíðina á Breiðabakka 1975, en komst ekki. Ég átti von á mínum fyrsta erfingja og því fór svo að þegar fólkið streymdi til Eyja með flugi voru tveir farþegar til Reykjavíkur í einni vélinni, ég og bæjarfógetinn. Ég vegna þess að frumburðurinn var væntanlegur á hverriu stundu í Reykjavík, en bæjarfógetinn vegna þess að hann var mest hataði maður Vestmannaeyja um þjóðhátíðina 1975. Hann hafði fyrirskipað lokun á Ríkinu í Eyjum strax á þriðjudeginum. Ég var víðsfjarri 1976, en kom að þjóðhátíðinni fyrstu árin í Herjólfsdal 1977-1980, reyndar ekki 1977 þegar erfingi númer tvö var á leiðinni, en ekki söguna meir eftir 1980.

Síðan ég flutti heim 1996 hefur læðst að mér þrái að koma við á þjóðhátíð og rifja upp gamla og yndislega stemmningu frá því fyrstu árin eftir gos þegar samkenndin var ráðandi í öllu sem Eyjamenn tóku sér fyrir hendur. Ég hefi enn ekki látið verða af því, en á hverju ári eftir húkkaraballið kemur gamla nostalgían upp í mér:

Ég skal mæta næst. Þetta næst er bara ekki komið ennþá!


0 ummæli:







Skrifa ummæli