miðvikudagur, ágúst 06, 2008

6. ágúst 2008 - Svo var það fyrir átta árum að ég kvaddi þig með tárum.

Um leið og ég rifja upp þessar ljóðlínur Tómasar vil ég taka fram að ekki bárust nein harmaljóð úr hafsins bárum og að tárin voru óttaleg krókódílatár, enda var fremur léttir að lítilli ákvörðun sem ég hafði tekið sex vikum fyrr og ákvað að láta rætast þennan dag, á afmælisdegi dóttur minnar þann 6. ágúst árið 2000.

Ákvörðunin var létt, en framkvæmdin öllu erfiðari. Ég hafði nokkrum sinnum reynt að hætta að reykja áður, en ávallt mistekist. Í hvert sinn sem ég reyndi að hætta hófst áróðursherferð Tóbaksvarnarnefndar og allt minnti mig á nautnina af því að reykja og ávallt endaði ævintýrið með því að ég féll á bindindinu.

Nú var ég ákveðin í að láta Tóbaksvarnarnefnd ekki hafa áhrif á framkvæmd ákvörðunar minnar, gaf ekkert fyrir öll „góðu“ ráðin frá hinu opinbera og hélt mig við öll möguleg nikótínlyf sem hægt var að komast yfir á meðan ég var að losa mig við vanann við að kveikja í sígarettunni, að kveikja í um leið og ég settist með kaffibollann, að fá mér bloss um leið og augun opnuðust á morgnanna.

Það liðu þrír mánuðir uns ég þorði að fækka nikótínefnunum og minnka notkun þeirra og það liðu aðrir þrír mánuðir uns ég hætti alveg notkun nikótíntyggjós með öllu. Þrátt fyrir að vera alveg hætt öllu kom augnablikslöngunin oft upp í hugann. Þessi augnablikshugskot mín koma enn upp í hugann, en nú orðið svo sjaldan að það líða vikur á milli.

Það er þó ekki vegna þess að ég er hætt sem ég fer orðið sárasjaldan á kráarrölt. Það er frekar vegna þess að núna finn ég vondu lyktina af hinum kráargestunum sem fannst ekki áður en reykingabann tók gildi á veitingastöðum á Íslandi.

-----oOo-----

P.s. Til hamingju með daginn Ragnhildur :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli