föstudagur, ágúst 22, 2008

22. ágúst 2008 - Enn af meirihlutaskiptum í borgarstjórn

Nú þegar enn einn meirihlutinn sér dagsins ljós í Reykjavík, tekur jafnframt við völdum fimmti stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur á kjörtímabilinu, á rúmum tveimur árum, mátti þó áður telja að mælirinn væri fullur.

Auðvitað gekk ég á torg á fimmtudag og mótmælti nýja meirihlutanum, reyndar ekki lengra en í Kringluna þar sem ég bauð fólki rauðar pillur gegn ruglinu í stjórn Reykjavíkur ásamt góðu fólki flokksbundnu í Samfylkingunni sem bauð fólki rauðar rósir til áminningar um að senn færi að styttast í næstu kosningar. Þetta mæltist mjög vel fyrir enda var reseptið á rauðu pillurnar skrifað af Degi B. Eggertssyni.

Þegar heim var komið hóf ég að kynna mér æviferil nýja stjórnarformannsins. Þar stendur meðal annars:

Guðlaugur Gylfi Sverrisson fæddist 2. febrúar 1961 í Reykjavík ... . ... hóf nám í MH en hætti 1980 og lauk 4. stigi í Vélskóla Íslands 1984. Hann var 2. vélstjóri hjá BÚR á Ingólfi Arnarsyni RE 1984-85, sölumaður hjá heildversluninni Bláfelli 1985-87, yfirvélstjóri framleiðsludeildar ÁTVR 1987-90, en hefur síðan verið aðstoðarverslunarstjóri ÁTVR í Hafnarfirði. Hann hefur starfað í Ferðafélagi Íslands og var ... . (Úr vélstjóra og vélfræðingatali útg 1996).

Guðlaugur er greinilega maður að mínu skapi og mun vafalaust sóma sér vel í stjórn Orkuveitunnar. Vafalaust mun ég halda áfram að skamma hinn nýja meirihluta í borgarstjórn eins og hann á skilið, en ef einhver dirfist að tala illa um þennan öðlingspilt að ósekju í mín eyru er mér að mæta. Og hananú!


0 ummæli:







Skrifa ummæli