fimmtudagur, ágúst 21, 2008

21. ágúst 2008 - Raunverulegur píslarvottur - Jan Palach


Þessi dagur fyrir 40 árum verður lengi í minnum hafður, þessi hræðilegi dagur þegar Sovétmenn réðust inn í Tékkóslóvakíu, eftir vorið í Prag. Þennan dag kæfðu Sovétríkin og undirsátar þeirra vorið i Prag undir stjórn Alexanders Dubcek, ýttu honum út í ystu myrkur og sýndu heiminum Sovétsins verstu hliðar.

Jan Palach var þá tvítugur stúdent við háskólann í Prag. Þann 16. janúar 1969, kveikti hann í sér á Vencelásartorgi í Prag til að mótmæla innrásinni og ritskoðun innrásarherjanna. Hann lést svo þremur dögum síðar af sárum sínum.

Ég minnist þess er fréttir bárust af innrásinni í Tékkóslóvakíu þennan hræðilega dag árið 1968. Ég var þá vestur á Bíldudal og við vorum í höfn þennan dag. Enginn hafði áhuga fyrir að fara á sjó. Jafnvel vestur á Bíldudal fylltist fólk depurð vegna atburða sem áttu sér stað hátt í tvö þúsund mílur í burtu. Við urðum þess áskynja hve risaveldin réðu yfir lífi okkar og líf okkar fylltist sorg.

Nokkrum mánuðum síðar greip Jan Palach til örþrifaráða. Megi minning hans vaka með okkur um ókomna framtíð.


0 ummæli:







Skrifa ummæli