sunnudagur, ágúst 24, 2008

24. ágúst 2008 - Sigfús Sigurðsson

Ég lenti einu sinni í flugvél með íslenska landsliðinu í handbolta. Stór hluti liðsins var nokkuð niðurdreginn, enda hafði landsliðið spilað þrjá leiki í einhverri heimsmeistarakeppni suður í Slóveníu og tapað öllum ef ég man rétt. Þar sem liðið var á leið út í vélina gerði ég mér grein fyrir því hverskonar tröll Sigfús Sigurðsson var og er. Þegar út í vél var komið fékk ég á tilfinninguna að vélin væri fulllítil fyrir Sigfús Sigurðsson, ekki einungis vegna stærðar mannsins, heldur kannski frekar fyrir þá útgeislun sem stafaði af honum.

Þrátt fyrir að margir væru niðurdregnir, hló Sigfús og skemmti sér og hughreysti félaga sína með hlátri og ekki sást hann drekka áfengi meðan á flugferðinni stóð. Það var ekki hægt annað en að hrífast með og jafnvel kreista fram broskipru er einhver brandarinn flaug frá Sigfúsi og þvert yfir ganginn þar sem ég sat, falin á bak við Mogga sem sagði frá síðustu tapleikjum íslenska landsliðsins í handbolta.

Fjölmiðlar víða á Norðurlöndum eiga ekki orð yfir afrek Ólafs Stefánssonar í landsliðinu og vafalaust á hann það allt skilið. Sjálf fylgist ég lítið með handboltanum, man þó að Þorbergur Aðalsteinsson var oft umræddur í sænskum fjölmiðlum fyrstu árin mín í Svíþjóð, en þá var minn gamli skólafélagi úr Gaggó, Axel Axelsson löngu gleymdur á alþjóðavettvangi.

Ólafur Stefánsson er frábær leikmaður, en ég held að Sigfús Sigurðsson og allir hinir eigi ekki síður sinn þátt í frábæru gengi íslenska landsliðsins í handbolta. Allavega varð ég stórhrifin af skemmtilegri framkomu Sigfúsar Sigurðssonar í þessari flugferð forðum daga og hefur hann verið í hálfgerðu uppáhaldi hjá mér síðan þá.

Auðvitað vona ég að Ísland nái gullinu, en ég er alveg sátt við árangurinn hvernig sem fer úr þessu og minni jafnframt á að í upphafi leiks eru jafnmargir í hvoru liði, bara miklu betri strákar í íslenska liðinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli