laugardagur, ágúst 23, 2008

23. ágúst 2008 - Af pólitískri baráttu

Á yngri árum átti ég það til að taka þátt í pólitískri baráttu fyrir kosningar með misjöfnun árangri, allavega var árangurinn fremur rýr miðað við áhugann sem lagt var upp með. Síðan hefur margt skeð, ég orðin öllu hógværari en á árum áður og hætt tilraunum mínum til að frelsa heiminn frá sjálfum sér og hefi verið meðlimur í Samfylkingunni síðan um kosningar 2006.

Fyrir alþingiskosningarnar 2007 stóð ég vaktina í Kringlunni í nokkra daga með mun betri árangri en á árum áður, bæði hvað snertir viðmót fólks sem og árangur kosninga. Allavega lagði ég fram minn skerf til að flokkurinn kæmist vel frá kosningunum, en það hefur að sjálfsögðu ekkert að gera með það að ég flokka mig með verkalýðshlutanum og því hlynnt hógværri uppbyggingu í stóriðju.

Síðustu tvo dagana hefi ég aftur staðið vaktina í Kringlunni, nú ásamt þingmönnum, ráðherra og borgarfulltrúum Samfylkingar þar sem við höfum verið að vekja athygli á alvarleika borgarmálanna með jákvæðum hætti, þ.e. rauðum rósum og rauðum (sælgætis)pillum gegn rugli í borgarmálunum. Viðbrögðin voru ótrúleg. Það kom vart fyrir að við fengjum á okkur hreyting eða neikvæðni. Þótt vissulega tækju ekki allir við rósunum sem var boðin rós, en við náðum einungis hluta allra þeirra sem fóru framhjá, þá gefur það vonir um gott gengi í næstu kosningum.


0 ummæli:Skrifa ummæli